Lífið

Skráði sig í flugnám, varð vegan og stofnaði fyrirtæki í maníunni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bjarney ásamt eiginmanni sínum og börnunum sex.
Bjarney ásamt eiginmanni sínum og börnunum sex. mynd/bjarney
„Ég skrifa þennan póst skjálfandi af hræðslu, með hann stilltan aðeins fyrir mig því að ég verð að koma þessu frá mér, vanlíðanin og hræðslan er svo mikil. Kannski ef ég er nógu hugrökk þá stilli ég hann þannig að aðrir geti hann séð,“ skrifar Bjarney Vigdís Ingimundardóttir. Á Facebook-síðu sinni birtir hún frásögn af því hvernig hún uppgötvaði að því að hún þjáist af geðhvarfasýki, felmtursröskun, almennri kvíðaröskun og áráttu- og þráhyggjuröskun.

Bjarney er 28 ára gömul búsett í Borgarnesi þar sem hún starfar sem yfirþjónn á Hótel Hamri. Samtals eiga hún og eiginmaður hennar, Sigurður Viktor, sex börn. Hann þrjú úr fyrra sambandi, hún tvö úr fyrra sambandi og eitt eiga þau saman.

„Allir þekkja mig sem lífsglöðu, kátu, brosandi, sífellt á ferðinni, duglegu, orkumiklu og málsglöðu Bjarney sem gerir alveg miljón hluti sem að engin botnar í, er sífellt að gera eitthvað nýtt,“ skrifar hún. „Ég ætlaði mér aldrei að skrifa þetta, opinbera þetta og leyfa öðrum að vita um mínar raunir undanfarin mánuð og síðustu ár en ég ætla að vera nógu hugrökk til að gera það hér því að ég á ekki að skammast mín frekar en aðrir, þó að ég geri það þó alveg helling.

Bjarney ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Viktori, en þau eiga brúðkaupsafmæli eftir þrjá daga.mynd/bjarney
Sveif skýjum ofar í sumar

Fyrir rétt rúmum mánuði leitaði Bjarney sér aðstoðar á bráðamóttöku geðdeildar eftir að hafa grátið stanslaust í margar klukkustundir. Við tók bið eftir greiningu en þar til var hún sett á lyf til að aðstoða með svefn og til að tempra mestu depurðina. Mat geðlækna var að hún væri í geðlægð eftir gífurlega maníu.

„Sumarið var magnað, ég þurfti ekki svefn, ég gat haldið endalaust áfram án hvíldar en allir í kringum mig voru orðnir örmagna á að vera í kringum mig. En ég upplifði mig svo frábæra, ég gat allt, allt var gaman og mér leið svo rosalega vel, það er ekki hægt að lýsa þessari tilfinningu en sjálfstraustið mitt var orðið svo mikið að mér fannst eins og ég væri að fara að sigra heiminn,“ skrifar Bjarney.

Í samtali við Vísi segir hún að hún hafi verið hátt uppi í meira og minna allt sumar en samt alltaf verið að fara hærra og hærra. „Ég keypti til að mynda lager af varasölvum og kertum og ætlaði að stofna fyrirtæki út frá því. Ég gerðist vegan, ég keypti haug af hlutum sem ég þurfti ekki. Ég skráði mig í flugnám og borgaði fyrir það og sótti um að vera fósturforeldri hjá Barnavernd.“

Slíkt reynir á þolrif þeirra sem þú umgengst og kom það fyrir að maðurinn hennar var farinn að sofa áður en hún kom heim úr vinnu til að fá frið fyrir hugmyndum hennar. Að eigin sögn voru hugmyndirnar stundum fimm á einu kvöldi og allar jafn frábærar í hennar huga.

Bjarney ætlar sér að komast í gegnum erfiðleikanna með aðstoð þeirra sem henni standa næst.
Eitthvað hlaut að gefa sig

Bjarney þjáist einnig af áráttu- og þráhyggjuröskun. Áður en hún þarf að fara að sofa þarf hún að athuga hvort útidyrahurðin sé ekki læst og athuga það. Einnig athugar hún alltaf hvort börnin andi ekki ábyggilega, reykskynjarinn verður að vera í lagi og hlutirnir í eldhúsinu verða að vera í ákveðinni röð.

„Stundum tek ég tarnir þar sem ég bara verð að vita allt um einhvern ákveðinn hlut. Í sumar fékk ég óstjórnlega hvöt til að vita allt um hryðjuverk þannig ég gerði það. Hlustaði á hljóðbækur í vinnunni og kom síðan heim og las allt sem ég fann. Horfði á heimildaþætti og bíómyndir. Ég svaf kannski í tvo til þrjá tíma og svo var allur dagurinn var undirlagður í þetta,“ segir Bjarney. Síðan tóku hlutirnir við hver af öðrum. Heimsstyrjaldirnar, flugvélar, meðferð á dýrum, stjórnmál og svo mætti lengi upp telja.

Eftir að hafa verið svona upptjúnuð svo mánuðum skipti gaf eitthvað sig. Í stað þess að vera ósigrandi ofurkona helltist þunglyndið og vanmátturinn yfir Bjarney. „Skömmin næstum því gerði út af við mig og ég bara grét, ég var svo tóm og ég sagði ekkert bara grét. Siggi hafði svo miklar áhyggjur og við ákváðum saman að ég skildi fara upp á geðdeild,“ skrifar hún.

„Mér hefur liðið alveg virkilega illa undanfarið, skömmin er að gera út af við mig, hvernig get ég verið svona lasin? Af hverju er ég á lyfjum? Ég sem hef alltaf verið svo mikið á móti lyfjum. Ég hef meira að segja nokkrum sinnum hugsað að það væru allir betur settir ef að ég myndi hverfa, ef að sjórinn myndi bara taka mig. Þetta er mjög ólíkt mér, eða þeirri Bjarney sem að allir þekkja.“

Bjarney er afar jákvæð að eðlisfari og ætlar sér að komast í gegnum þetta með stuðningi þeirra sem henni standa næst. Fram undan sé lyfjameðferð við geðhvarfasýkinni og hugræn atferlismeðferð. Hún getur ekki fengið lyf við kvíðanum þar sem þau geta haft hliðarverkandi áhrif á geðhvörfin og sett hana í ójafnvægi.

„Ég vil biðja fólk um að leita sér hjálpar ef því líður illa. Það er enginn skömm í því og geðsjúkdómar eru ekki eitthvað sem þú átt að lifa með í felum. Ég hef eytt mörgum árum í að skammast mín og það bara hjálpar ekki neitt. Það getur verið erfitt að klifra upp fjallið en þegar að maður er komin á toppinn þá líður manni svo vel og er svo stoltur af sjálfum sér, fjöllin eru misjafnlega erfið eins og þau eru mörg en það bara má aldrei gefast upp,“ segir hún að lokum.

Pistil hennar má sjá í heild sini hér að neðan.

Berskjölduð, einlæg, hrædd, niðurlægð, týnd og fyrst og fremst hugrökk skrifa ég þennan langa pistil sem að ég vona að þ...

Posted by Bjarney Vigdís Ingimundardóttir on Tuesday, 20 October 2015





Fleiri fréttir

Sjá meira


×