Lífið

Kúrekarnir tóku hattinn ofan fyrir Önnu Mjöll

Elín Albertsdóttir skrifar
Anna Mjöll vekur athygli hvar sem hún kemur. Myndin var tekin fyrir nokkrum dögum fyrir þetta viðtal í Los Angeles.
Anna Mjöll vekur athygli hvar sem hún kemur. Myndin var tekin fyrir nokkrum dögum fyrir þetta viðtal í Los Angeles.
Anna Mjöll Ólafsdóttir söngkona og móðir hennar, Svanhildur Jakobsdóttir, verða með jólatónleika í Salnum 3. desember til minningar um föður, eiginmann og ástsælan tónlistarmann, Ólaf Gauk. Anna Mjöll, sem býr í Los Angeles, segist hlakka mikið til kvöldsins.  

Anna Mjöll vekur endalaust athygli, enda fer hún ótroðnar slóðir í lífinu. Tónlistin er hennar aðalstarf en Anna Mjöll syngur í tveimur klúbbum í Los Angeles. „Ég syng í flottustu djass-klúbbunum hér, Herb Alpert's Vibrato i Bel Air og The Dave Koz Lounge i Beverly Hills. Það er alltaf troðið út úr dyrum svo það er mjög skemmtilegt,“ segir hún. „Það eru alltaf einhverjar skemmtilegar uppákomur. Þetta er lítill bær þótt hann líti út fyrir að vera stór. Alls konar fólk kemur í klúbbinn, sumir mjög þekktir. Til dæmis bilaði hjá mér hljóðið á tónleikum um daginn og hljóðmaðurinn var veikur. Ég var að reyna að redda málum þegar James Caan og sonur hans stóðu á fætur í salnum og sögðu; „Eigum við ekki að redda þessu fyrir þig?“ Og þeir björguðu málum,“ segir Anna Mjöll og bætir við að hver dagur sé nýr og spennandi. „Það góða við þetta líf er að maður veit aldrei hvað gerist næst.“



Tónlist í ruslið

Þegar Anna Mjöll er spurð hvort hún geti hugsað sér að gera nýja plötu, svarar hún. „Það er búið að vera á planinu lengi. Ég á það til að vinna brjálæðislega mikið í tónlistinni en henda svo öllu í ruslið af því mér finnst það ekki nægilega gott. Svo byrja ég upp á nýtt. Með þessum vinnubrögðum tekur það víst langan tíma að slíta sig frá verkefninu og hleypa því út í heiminn,“ segir Anna og bætir því við að faðir hennar sé hennar helsta fyrirmynd í tónlistinni. Hann var þó skipulagður í því sem hann var að gera. Hins vegar sé móðir hennar, Svanhildur, fyrirmynd þegar kemur að útliti.

Það er nóg af frægu fólki í Los Angeles. Tom Jones kíkti á Önnu Mjöll og vel fór á með þeim. Þessi flotta mynd er af Facebook-síðu Önnu Mjallar.
Gott að vera ein



Anna Mjöll segist fyrst og fremst vera Íslendingur þótt hún hafi búið lengi í Bandaríkjunum. „Ég myndi segja að ég væri Íslendingur númer eitt og heimsborgari númer tvö. Þetta er nefnilega svo voðalega lítill heimur sem við eigum öll saman. Ég er hins vegar ekki í miklu sambandi við Íslendinga hér í Los Angeles. Þekki bara nokkra sem hafa verið hér lengi og sumir lengur en ég.

Nokkra þeirra hitti ég árlega á Scandinavian Festival þar sem ég hef sungið íslenska þjóðsönginn í nokkur ár. Varakonsúll Íslands, Linda Björk Bragadóttir, heldur alltaf glæsilega ræðu fyrir Íslands hönd. Síðan tek ég lagið og Erla Dögg Ingjaldsdóttir úr MINARC hefur komið fram í glæsileg í þjóðbúningi með íslenska fánann. Reyndar er dóttir Lindu, Tinna, tekin við því hlutverki af Erlu. Við berum allar mjög sterkar taugar til Íslands, kannski meiri en margir sem búa á landinu. Annars finnst mér yfirleitt gott að vera ein – svona inn á milli hjónabanda,“ segir hún kímin. 



Engin börn



Talandi um hjónabönd. Anna Mjöll giftist Luca Ell­is á Íslandi í febrúar 2013 og það er því ekki úr vegi að spyrja hana út í það. „Nei, þetta gekk nú ekki upp. Hjónabandið entist bara í eitt ár. Við vorum allt of ólík,“ segir hún og viðurkennir að hana hafi lengi langað til að eignast barn en því miður hafi það ekki tekist.

„Mér hefði þótt vænt um að eignast eins og eitt barn á ævinni en ég hef misst fóstur oftar en einu sinni og það virðist sannað að það mál er ekki í mínum höndum. Ætli ég bíði ekki bara og sjái til hvað Guð hefur í hyggju,“ segir hún hreinskilin og bætir við að hún eigi hunda sem hún fari með í göngur. „Þeim finnst voða sport að koma við í dýrabúðinni og kaupa nammi. Þeir velja nammið og hlaupa svo með það út sigri hrósandi,“ segir Anna Mjöll og hlær. „Sjálfri finnst mér gott að liggja á ströndinni og slappa af. Öldurnar hafa róandi áhrif.“ 



Eldaði á búgarði 



En hefur þú gaman af því að búa til mat?

„Já, en ég gerði það samt meira á „ranchinum“ (búgarðinum) með Cal. Ég eldaði fyrir hann meira eða minna á átta ára tímabili. Þá bjó ég stundum til mat fyrir átján manns en var auðvitað með þjónustufólk til að hjálpa til og ganga frá eftir matinn. Ég er nefnilega rosalega góð í því að leggja allt í rúst í eldhúsinu. Við tókum líka stundum á móti kúrekum, alvöru „cowboys“, en þeir höfðu það starf að reka Black Angus nautgripi á milli fylkja. Við vorum með nokkur þúsund Black Angus nautgripi en það er besta kjöt í heimi. Þegar kúrekarnir komu bauð ég þeim alltaf upp á nýbakaða eplaböku, Þá tóku þeir niður hattana og kölluðu mig „Ma‘am“.“

Til upprifjunar má nefna að Anna Mjöll giftist Cal Worthington, þekktum bílasala og búgarðseiganda, árið 2011. Það vakti mikla athygli þar sem um fimmtíu ára aldursmunur var á þeim. Þau höfðu verið nánir vinir til margra ára þegar þau gengu í hjónabandið sem entist stutt. 



Stress virkar á útlitið 



Anna Mjöll er 45 ára og hefur sannarlega erft hið unglega útlit móður sinnar. Þegar hún er spurð hvernig hún fari að því að halda sér í svona góðu formi, gantast hún með það og svarar. „Stress virkar vel og svo er líka mjög gott að gifta sig svona einu sinni á ári. Ég hef aldrei talið mig vera tískumanneskju og veit eiginlega aldrei hvað er í tísku. Alexander McQueen er þó í miklu uppáhaldi. Hins vegar finnst mér gott að hafa fallegt í kringum mig. Það þarf samt ekki mikið til, nokkur kerti, gosbrunnur og gott vín.“

Anna Mjöll ferðaðist mikið þegar hún fylgdi söngvaranum Julio Iglesias á tónleikaferðalagi hans. „Bandaríkin eru stórkostlegt land sem hefur upp á margt að bjóða. Mér finnst alltaf gaman að koma til New York eða Las Vegas. Þar get ég tekið inn orku og hlaðið batteríin. Mér finnst auðveldara að ferðast um Bandaríkin heldur en Evrópu, góð gisting er miklu ódýrari hér. Maður bara hendir sér í bílinn og keyrir af stað út í óvissuna, vitandi að alls staðar er góður matur og fín hótel. Auðvitað sakna ég fjölskyldunnar á Íslandi, sumarsins, birtunnar, svala loftsins og ýsunnar en mér líður vel hér.“

Einhleyp á ný. Einkalíf Önnu Mjallar vekur jafnan athygli. Sjálf gerir hún grín að misheppnuðum hjónaböndunum.
Minnist pabba með tónleikum



Anna Mjöll verður á Íslandi í nokkra daga í desember. Mæðgurnar ætla að minnast Ólafs Gauks sem hefði orðið 85 ára á þessu ári. „Þetta verða stórskemmtilegir tónleikar. Við ætlum að hafa þá eins skemmtilega og við mögulega getum. Pabbi gerði texta við mörg af vinsælustu jólalögunum eins og Hátíð í bæ, Yfir fannhvíta jörð, Það heyrast jólabjöllur, Óskin um gleðileg jól, Meiri snjó og mörg fleiri. Svo fljúga með lög eins og Bláu augun þín, Segð‘ ekki meir, Þú ert minn súkkulaðiís og fleira. Ég verð svo með tónleika hér í Beverly Hills seinna í desember.“

Þegar Anna Mjöll er að lokum spurð hvort hún muni flytja einhvern tíma aftur heim, svarar hún. „Ég lít svo á að þar sem maður er niðurkominn á maður heima. Ég veit ekki hvort ég á eftir að flytja til Íslands. Ég hef nú ekki lært mikið af þessu lífi en ég veit að þótt maður haldi að maður viti allt þá veit maður í raun ekki neitt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×