Lífið

Vantar þúsund læk til fá bróður sinn með sér í maraþonið

Atli Ísleifsson skrifar
Anna Kristín Jensdóttir fór hálft maraþon síðasta sumar.
Anna Kristín Jensdóttir fór hálft maraþon síðasta sumar. Mynd/Facebook
„Um fjögur þúsund læk komin og það vantar bara þúsund. Því fleiri því betra,“ segir Anna Kristín Jensdóttir sem reynir nú að fá bróður sinn með sér í Reykjavíkurmaraþonið næsta sumar.

Anna Kristín er sjálf bundin við hjólastól og fór hálfmaraþon síðasta sumar ásamt sundfélaga sínum. „Bróðir minn var mjög stoltur af mér og ég sagði þá við hann að „ef ég get gert þetta, getur þú ekki gert það líka?“ Þá sagði hann „nei, komm on, ég get það ekki“. Ég spurði hann þá hvort hann væri til ef ég fengi tvö þúsund læk á Facebook. Þá sagði hann nei, fimm þúsund.“

Anna Kristín segist loforðið hafa gleymst en svo rifjað upp á kvöldi gamlársdags. „Við vorum að borða og þá minntist ég aftur á þetta. Þá kom hann með einhverjar yfirlýsingar og þá sagðist ég ætla að fá fimm þúsund læk,“ en áramótaheitið hjá bróður hennar er að léttast. Í kjölfarið útbjó Anna Kristín svo þessa mynd sem hefur vakið athygli á Facebook síðustu daga. Eins og áður segir hafa um fjögur þúsund manns líkað við myndina.

Anna Kristín segist hafa verið bundin við hjólastól alla tíð. „Ég fór í lýðháskóla í Danmörku síðasta vetur og æfði þar íþróttir frá mars og fram í júní. Ég hef alla tíð haft mjög gaman af íþróttum og æfi meðal annars sund með sunddeild KR. Svo þegar ég kom heim frá Danmörku langaði mig til að gera eitthvað meira og fékk þá sundkennarann minn til að fara með mér í hálfmaraþon í ágúst.“

Hún segir það hafa verið mjög skemmtilega upplifun. „Ég fór það á hjólastólnum mínum en nú er stefnan sett á að fara hluta maraþonsins á göngugrind og lána bróður mínum þá hjólastólinn.“

En ertu búin að heyra í bróður þínum nýlega? Er hann uggandi?

„Já, hann hringdi í mig í gærkvöldi og þá var hann í taugaáfalli. Ég veit ekki alveg hver staðan er á honum núna. Hann er ekki mikill íþróttamaður.“

Líka má við myndina á Facebook-síðu Önnu Kristínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×