Lífið

Skírnarveislan fór fram í Staðarskála

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Skírnavotturinn Stefan Schmitt, Fíus Franz Ásgeirsson og Björn Ingi Sverrisson, mágur Kathrinar við athöfnina.
Skírnavotturinn Stefan Schmitt, Fíus Franz Ásgeirsson og Björn Ingi Sverrisson, mágur Kathrinar við athöfnina. mynd/aðsend
Hjónin Kathrin Schmitt og Ásgeir Sverrisson, bændur í Brautarholti í Hrútafirði, brutu blað í sögu Staðarskála, einni ástsælustu vegasjoppu landsins, þegar þau héldu þar skírnarveislu.

Sonur þeirra var skírður í Melstað í Hrútafirði og fékk nafnið Fíus Franz, en hann er jafnframt eini einstaklingurinn hér á landi sem ber það nafn.

„Snorri sem rekur N1 Staðarskála og konan hans björguðu okkur alveg, við vorum með svo lítinn fyrirvara og það var alls staðar lokað,“ segir Kathrin. „Starfsfólkið á mikið hrós skilið,“ bætir hún við. „Þetta var alveg æðislegt og manni leið ekkert eins og maður væri í Staðarskála. Við vorum í svona smá hliðarsal.“

Hjónin höfðu upprunalega haft í hyggju að halda veisluna í Gauksmýri eða Hraunsnesi, sem eru hótel með veitingastað í grennd við Hrútafjörð. „Fyrirvarinn var svo stuttur og þessir staðir voru eingöngu opnir á kvöldin. Við þurftum stað þar sem boðið er upp á mat og Staðarskáli býður upp á frábæran mat,“ útskýrir Kathrin létt í lundu.

Vegasjoppan N1 í Staðarskála er ein þekktasta og vinsælasta vegasjoppa landsins.vísir/Gva
Svanhildur Hlöðversdóttir, stöðvarstjóri á N1 Staðarskála, segir að vissulega hafi verið óvenjulegt að halda veisluna þar. „Þetta er alls ekki algengt, ég man bara eftir þessu eina tilfelli sem að skírnarveisla hefur verið haldin hérna,“ segir Svanhildur. „Við björgum öllu sem við erum beðin um að bjarga í Staðarskála,“ bætir hún við og hlær.

Skírnarvotturinn var þýskur, bróðir Kathrin, Stefan Schmitt en hann er einnig töframaður. „Hann kom sérstaklega til landsins til þess að vera skírnarvottur og svo sýndi meðal annars töfrabrögð í skírnarveislunni við mjög góðar undirtektir veislugesta,“ bætir Katrín við. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×