Lífið

Strandarpartí um háveturinn

Þórður Ingi Jónson skrifar
Birgir og Rakel í hitabeltisgír ásamt Hjalta Frey Ragnarssyni, sem tekur þátt í mynd- og tónlistargjörningum.
Birgir og Rakel í hitabeltisgír ásamt Hjalta Frey Ragnarssyni, sem tekur þátt í mynd- og tónlistargjörningum. vísir/ernir
„Þetta er dagdraumur sem varð að myndlistarsýningu,“ segja Rakel Mjöll Leifsdóttir og Birgir Sigurjón Birgisson, mynd- og tónlistarfólk sem stendur að listasýningunni og strandarpartíinu Wish You Were Here í Kaffistofunni á Hverfisgötu 44.

Þau hafa breytt Kaffistofunni í gerviströnd og komið fyrir 280 kílóum af hvítum sandi ásamt pálmatrjám til þess að gestir geti flutt hugann á kunnuglegar strandir, burt frá vetrarhálkunni í Reykjavík.

„Við upplifum tímaflakk í gegnum skynfærin okkar. Þessi sýning biður gesti um að nota skynfæri sín og ímyndunaraflið til að leyfa huganum að ferðast aftur í tímann að hlýrri minningu, eða kannski er minningin tilbúningur. Í Japan hafa þau byggt risa inniströnd með virkar öldur, ætli þetta sé ekki minni útgáfa af því,“ segja þau.

Sýningin verður opnuð í dag klukkan 12.00 en um kvöldið verður síðan strandarpartí með sólstrandargjörningum og tónleikum frá ýmsu lista- og tónlistarfólki, sem hefjast klukkan 19.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×