Lífið

YouTube og STEF gera samning

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Stefs fagnar samningnum við Youtube.
Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Stefs fagnar samningnum við Youtube. vísir/ernir
YouTube og íslensku höfundaréttarsamtökin STEF hafa gert með sér samning sem felur í sér að meðlimir STEFs svo og erlendra systursamtaka munu geta fengið greitt fyrir notkun tónlistar sinnar á YouTube á Íslandi. „Þessi nýja tekjuleið eykur möguleika á fjárhagslegum ávinningi rétthafa á notkun verka þeirra á YouTube á Íslandi. Það að ná samningi við YouTube markar þáttaskil í að skapa ný tækifæri fyrir okkar rétthafa,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs.

Munu meðlimir STEFs og tengdir aðilar geta fengið greitt þegar tónlist þeirra aflar tekna með spilun eða birtingu auglýsinga á YouTube. STEF fær tiltekið hlutfall af tekjum YouTube á Íslandi sem fer í greiðslur til listamannanna.

„Við erum einstaklega ánægð með að hafa náð samningi við STEF og höfunda innan samtakanna. Þetta mun hlúa að nýsköpun íslensks efnis og um leið gera tónlistarflytjendum, tónskáldum og textahöfundum kleift að fá greitt fyrir myndbönd á YouTube,“ segir Gudrun Schweppe, framkvæmdastjóri leyfismála hjá YouTube EMEA. „Þetta er líka sigur fyrir YouTube-samfélagið, en mikilvægur hluti upplifunar þeirra á netinu er að hlusta á tónlist og uppgötva nýja tónlistarmenn á YouTube.“

Samningurinn mun hafa áhrif en Guðrún segir að væntingum félagsmanna ætti að stilla í hóf. „Á Norðurlöndunum hafa svona samningar verið gerðir en þá hafa þetta verið frekar lágar greiðslur. Höfundar fá þó greitt fyrir sín verk í gegnum STEF og ef þeir setja inn myndböndin sín þá eiga þeir réttinn á sínum myndböndum og eiga þá að fá greitt fyrir þau samkvæmt samningnum.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.