Það er einstaklega erfitt að halda sig við efnið í Fallout 4. Að ætla sér að ferðast frá einum punkti til annars. Hvort sem leiðin er stutt eða löng er gífurlega margt sem hreinlega sýgur til sín athygli spilara. Auk meginsögu leiksins eru fjölmörg hliðarverkefni sem spilarar geta leyst. Í upphafi snýr saga leiksins að því að finna son aðalhetjunnar sem var rænt. Sú leit stökkbreytist þó fljótt í eitthvað mun stærra og umfangsmeira.
Sem svo oft áður í leikjum Bethesda eru margir litlir gallar og jafnvel stórir í leiknum. Þeir ná þó alls ekki að draga úr gæðum leiksins, þó þeir geti verið pirrandi. Þá má gera ráð fyrir því að flestir þeirra verði lagaðir. Ef framleiðendur leiksins gera það ekki gera aðrir spilarar það. Bethesda ætlar að gefa út tól á næsta ári sem gerir spilurum kleyft að breyta leiknum að vild eða „modda“ hann.
Eldri leikir Bethesda lifa enn góðu lífi vegna mjög virkra samfélega svokallaðra „moddara“ sem halda grafík leikjanna við og bæta gífurlega miklu við spilun þeirra. Í fyrsta sinn verður þeim sem spila leikina á leikjatölvunum Xbox One og PS4 gert kleift að nálgast modda, en þó ekki í þeim fjölda sem PC eigendur geta nálgast.

Bardagakerfið er mun fágaðra en það hefur verið áður og allar hreyfingar mun betri. V.A.T.S kerfið er enn til staðar, þar sem spilarar geta gefið sér tíma til að miða á sérstaka hluta óvina og séð líkur á því hvort að skotin hitti eða ekki. Í stað þess að stöðva tíma eins og áður hægir það á leiknum.
Auk þess er hefur svokallað „crafting system“ verið endurbætt, þar sem spilarar geta bætt og breytt vopnum og klæðnaði. Sumum skammbyssum er hægt að breyta í langdrægan riffil og hægt er að bæta við kíkjum og byssustingum á byssur. Möguleikarnir eru mjög miklir.
Þá hefur því kerfi þar sem spilarar byggja upp karakter sinn verið breytt og borgar það sig fyrir þá sem hafa spilað gömlu leikina að kynna sér það vel. Ekki er neitt þak á því hvaða „level“ spilarar geta náð, eins og í gömlu leikjunum og hæfileikapunktarnir gömlu eru farnir.
Þá er sú nýjung á Falloutleik að búið er að bæta við veðri í leikinn. Það heppnast vel og lítur oft á tíðum einstaklega vel út.
Bardagakerfi leiksins hefur verið betrumbætt að miklu leyti og átök við einhverja af hinum fjölmörgu óvinveittu aðilum sem leikurinn hefur upp á að bjóða virka mun betur en í fyrri leikjum Bethesda. Þá hefur kjarnorkuauðn sjaldan sem aldrei litið betur út.