Viðskipti innlent

Bjarni: "Bankarnir verða að skilja kall tímans“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að sala Arion banka á bréfum í Símanum til vildarviðskiptavina rétt fyrir skráningu sé til þess fallin að rýra traust á fjármálamarkaði. Hann segir að bankarnir verði að skilja kall tímans og skynja þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.

Sú ákvörðun stjórnenda Arion banka að selja stóran hlut í Símanum til vildarviðskiptavina á lægra gengi rétt fyrir skráningu fyrirtækisins á markað þykir umdeild. Sal­an á hluta­bréf­un­um átti sér stað á sjö vikna tíma­bili í aðdrag­anda almenns útboðs á bréf­um í Símanum á mun lægra gengi en í almennu útboði. Hlut­ur­inn sem fjár­festa­hóp­ur­inn og vild­ar­viðskipta­vin­irn­ir keyptu ávaxtaðist um rúm­ar 720 millj­ón­ir króna á þeim vikum sem liðu frá viðskiptum fram að skráningu. Talsverð heift hefur verið í umræðunni um málið.

„Ég held að það sé alveg augljóst að það er ekki svigrúm fyrir það í íslensku samfélagi í dag að ganga fram með þeim hætti að fólk skynji það sem einhverja greiðasemi við útvalinn hóp manna að fá að taka þátt í kaupum á eignarhlutum umfram það sem stendur almennt til boða. Í þessu tilviki er það sláandi hversu mikill verðmunurinn er þegar félagið er skráð á markað,“ segri Bjarni Benediktsson.

Bjarni segir að stjórnvöld geti ekki grípi ekki inn í einkaréttarlega gjörninga Arion banka þótt ríkið eigi 13 prósent í bankanum.

„En bankarnir verða að skilja kall tímans. Menn verða að ganga fram í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til þeirra,“ segir Bjarni.

Í eigendastefnu ríkisins um eignarhald á fjármálafyrirtækjum kemur fram að eitt af meginmarkmiðum stefnunnar sé að byggja upp traust og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði.

Finnst þér þetta rýra traust á fjármálamarkaði, svona viðskiptahættir? „Já, það gerir það. Það þarf ekkert að velta því mikið fyrir sér.“


Tengdar fréttir

Erlend sérþekking?

Síminn var formlega skráður á markað í liðinni viku eftir hlutafjárútboð. Nú síðast fór fram almennt útboð þar sem hlutir í félaginu fóru á genginu 3,3. Áður höfðu vildarviðskiptavinir Arion banka fengið að kaupa á genginu 2,8. Í ágúst keypti svo hópur kringum stjórnendur félagsins um fimm prósenta hlut á genginu 2,5.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×