Sport

Guðmundur: Eigum að geta miklu betur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Stephensen í TBR-húsinu í gær.
Guðmundur Stephensen í TBR-húsinu í gær. Vísir/Vilhelm
Guðmundur Stephensen, landsliðsþjálfari í borðtennis og margfaldur Íslandsmeistari í greininni, er ekki ánægður með hvernig hans fólk hefur farið af stað á Smáþjóðaleikunum.

„Ísland hefur ekki spilað af þeirri getu sem það á að gera,“ sagði Guðmundur í samtali við Vísi í gær. „Ég er ekki að segja að við eigum að vinna endilega alla leiki en við eigum að standa miklu betur í þeim þjóðum sem við erum að spila við. Þetta eru smáþjóðir.“

Ísland tapaði öllum sínum leikjum í liðakeppninni í upphafi vikunnar. Í fjórum viðureignum í bæði karla- og kvennaflokki vann Ísland aðeins eina lotu.

„Það er svekkjandi að horfa upp á það því við eigum að geta betur,“ segir Guðmundur og játar því að það þurfi eitthvað mikið að gerast svo að þetta breytist.

„Það er greinilegt - deginum ljósara. Það vantar ekki spilara á Íslandi og þetta er ekki gamalt fólk. En það virðist eitthvað vanta upp á. Við eigum að vera nær þessum þjóðum sem við erum að spila við.“

Ísland lenti reyndar í sterkum riðlum í báðum flokkum í liðakeppninni. Báðir andstæðingar karla- og kvennaliðsins fóru svo alla leið í úrslit. „Ég vil ekki vera að kvarta en það var vissulega erfitt.“

„Samt er aðalmálið að leikmenn nái sínu fram. Tap er bara tap en þá er betra að tapa með reisn. Svitna og ná upp smá baráttu. Hafa gaman að þessu. Ekki að þetta sé bara búið áður en þetta byrjar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×