Lífið

Skrifar enn á hverjum degi 97 ára

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jenna er enn hress.
Jenna er enn hress. vísir/anton brink
„Jenna er framúrskarandi einstaklingur, afskaplega greind og hlý manneskja. Ein þeirra sem hefur mannbætandi áhrif á aðra,” segir sjónvarpskonan Sigrún Ósk Kristjánsdóttir sem gerði þátt um rithöfundinn Jennu Jensdóttur sem heitir einfaldlega Jenna og verður sýndur á Stöð 2 í kvöld. Jenna er orðin 97 ára en skrifar enn á hverjum einasta degi og það sem meira er, hún hefur handskrifað hvert einasta orð á löngum ferli.

„Jenna er líklega þekktust fyrir að hafa skrifað Öddu bækurnar víðfrægu um munaðarleysingjann Öddu en bækurnar hafa samanlagt selst í yfir 60 þúsund eintökum frá því þær voru gefnar út fyrst, geri aðrir betur,” segir Sigrún Ósk.

„Hún er líka tvíburi, en Ása tvíburasystir hennar lést í sumar. Um ári áður komust þær í sögubækurnar fyrir að vera langlífustu tvíburar Íslandssögunnar. Þær voru alla tíð nánar þrátt fyrir að hafa farið mjög ólíkar leiðir í lífinu.”

Auk þess að senda frá sér tugi barnabóka kenndi Jenna börnum og unglingum í áratugi. Í þættinum verður rætt við vini Jennu úr ýmsum ólíkum áttum og má þar nefna Þorgrím Þráinsson, Katrínu Jakobsdóttur, Vigdísi Finnbogadóttur, Jón Gnarr og Styrmi Gunnarsson.

Þátturinn hefst á Stöð 2 kl. 19.25 í kvöld og er í opinni dagskrá. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×