Handbolti

Haukar stórhuga í Olís-deild kvenna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
María, Elín og Jóna í Haukabúningnum.
María, Elín og Jóna í Haukabúningnum. mynd/haukar
Haukar ætla sér greinilega stóra hluti í Olís-deild kvenna á næstu leiktíð en í dag sömdu þrír nýjir leikmenn við liðið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Elín Jóna Þorsteinsdóttir, María Karlsdóttir og Jóna Sigríður Halldórsdóttir.

Elín Jóna, sem er 18 ára, er nýkrýndur Íslandsmeistari með Gróttu en hún þykir á meðal efnilegustu markmanna landsins og var m.a. valin í A-landsliðið fyrir vináttulandsleikina gegn Sviss í mars. Elín kemur til Hauka á eins árs lánssamningi.

María, sem leikur í stöðu línumanns, skrifaði undir tveggja ára samning við Hauka en hún kemur frá Fram. María, sem er 23 ára, skoraði 26 mörk í 22 deildarleikjum með Fram í vetur.

Jóna skrifaði einnig undir tveggja ára samning en hún hefur verið í hópi bestu rétthentu hornamanna deildarinnar á undanförnum árum. Jóna, sem er 26 ára, kemur frá ÍBV þar sem hún lék á síðustu leiktíð. Jóna, sem er uppalin hjá HK, hefur leikið tvo A-landsleiki.

Þá mun landsliðskonan Ramune Pekarskyte einnig vera á leið í Hauka samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Haukar féllu úr leik fyrir ÍBV í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í vor. Halldór Harri Kristjánsson lét af störfum sem þjálfari liðsins eftir tímabilið og við starfi hans tók Óskar Ármannsson.


Tengdar fréttir

Ramune í Hauka á ný

Ramune Pekarskyte er á leið til Hauka á nýjan leik, en þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun. Íslenska landsliðskonan kemur frá Havre í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×