Menning

"Gítarinn hefur oft bókstaflega bjargað lífi mínu“

Magnús Guðmundsson skrifar
Kristján Kristjánsson klár í frumsýningu í kvöld með gítarana sína.
Kristján Kristjánsson klár í frumsýningu í kvöld með gítarana sína. Visir/GVA
Í kvöld ætlar tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson, flestum þekktur sem KK, að stíga á Litla svið Borgarleikhússins og frumsýna einleikinn Vegbúar sem hann samdi í samvinnu við Jón Gunnar Þórðarson sem jafnframt er leikstjóri sýningarinnar. Kristján segir að leikhúsið sé honum nú ekki ókunnugt en óneitanlega sé Jón Gunnar leikhúsmaðurinn í tvíeykinu.

„Jón Gunnar er búinn að vera lengi að í leikhúsinu þrátt fyrir ungan aldur og innan leikhússins vita allir hver hann er. Hann hefur starfað víða og er menntaður í Englandi þar sem hann vann til að mynda með Kevin Spacey í einhverju Shakespeare-brölti. Við kynntumst fyrir einhverjum átta árum þegar hann setti upp Fool for Love eftir Sam Shepard með leikhópi sem hét Silfurtunglið og þar fékk hann gamla manninn til þess að koma og leika. Þessi sýning gekk ljómandi vel og fékk tvær tilnefningar til Grímuverðlauna. Við mættum að sjálfsögðu þangað og þar varð til þessi hugmynd að búa til leikrit sem byggir á sögu gítaranna minna. Það er það sem við erum svo að fara að sýna í kvöld.

Verkið er sem sagt byggt í kringum mína reynslu af gíturunum í gegnum tíðina og tengist líka ýmsum gítarleikurum s.s. John ­Lennon, Joe Hill og hinum og þessum snillingum. En gítararnir á sviðinu eru níu talsins, allir úr mínum ranni, en sá elsti er hundrað og fimm ára gamall.

Ég er að segja söguna af því hvernig þessir gítarar hafa komið upp í hendurnar á mér. Þeir hafa svona ratað einhvern veginn til mín. Þessi saga tengist svo stundum heiminum og tónlistinni og hvernig tónlistin hefur stundum breytt gangi mála í heiminum. Það er einn tónn sem lifir og það er sama hvað þeir skjóta menn þá er einn tónn sem lifir. Það er búið að skjóta marga en þeir lifa enn. Þetta fjallar soldið um það og er svona tónninn í þessu.“

Jón Gunnar Þórðarson og Kristján Kristjánsson á Litla sviði Borgarleikhússins með góða gítara.Visir/GVA
Kristján segir að hann tengi þetta líka við sína persónulegu sögu og fjölskyldusögu í gegnum árin. „Hvernig sum lögin hafa orðið til og hvaðan þau spretta. Það tekur alveg soldið á að fara í svona persónulegt verkefni. En ég ræð soldið hversu langt er gengið vegna þess að við skrifum þetta saman, við Jón Gunnar. Maður vill ekki vera að bera allt á torg svo ég fæ að halda aðeins í taumana með þennan persónulega þátt. En reyndar er nú mikið af tónlistinni sem ég hef samið í gegnum árin soldið ævisögulegt og byggir oft á þeirri reynslu sem ég hef öðlast á minni lífsleið. 

Og reynsla mín er ekkert ólík reynslu allra. Þetta er eins og ef þú hlustar á eitthvert lag og það snertir þig, þá er það út af þeirri reynslu sem þú hefur öðlast í lífinu. Kannski er svipuð reynsla að baki hjá þeim sem samdi lagið og þeim sem hlustaði en hún getur líka verið gjörólík en tengingin og tilfinningarnar skríða samt fram á eigin forsendum. Málið er að það er sammannlegur strengur í tónlistinni og tónninn lifir.“

Kristján á að baki langan feril sem trúbador og að mörgu leyti er stutt á milli trúbardorsins og leikhússins. „Já, það má vel segja það. Þetta er sögustund hjá trúbadornum KK sem byggir bæði á minni persónulegu reynslu og svo tengir maður í tónlistinni við stórkostlega tónlistarmenn á borð við Lennon, Bítlana og marga aðra og hvernig þeir hafa getað nýtt gítarinn til þess að skýla sér. Í raun og veru má segja að gítarinn hafi bjargað lífi mínu. En vilji fólk fá að komast að því hvernig gítarinn bjargaði lífi mínu, sem hann hefur gert oftar en einu sinni, þá þarf það að koma og sjá leikritið,“ segir Kristján og hlær sínum hlýja ráma hlátri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×