Lífið

Hugsjónir og sterk réttlætiskennd í farteskinu

Rikka skrifar
Andri Snær
Andri Snær visir/Valli og einkasafn
Andri Snær Magnason er án efa einn af hugmyndaríkustu og færustu rithöfundum sinnar kynslóðar á Íslandi og þó víða væri leitað. Hann er Árbæingur í húð og hár og getur rakið ættir sínar í póstnúmerið aftur um nokkra ættliði.

„Langafi og langamma voru frumbyggjar í Árbæjarhverfi. Afi var múrari og byggði þar hús sem hét Selás 3. Afi minn og amma búa enn í hverfinu, foreldrar mínir og fullt af frændfólki.“ Eldri systir hans er heilaskurðlæknir í Ameríku og yngri bróðir vinnur hjá Nýherja. Andri Snær bjó í Bandaríkjunum í sex ár, lengst af í Connecticut þar sem faðir hans var í framhaldsnámi í læknisfræði. Mamma hans er hjúkrunarfræðingur, afi hans er læknir, konan hans er hjúkrunarfræðingur og tengdamamma líka.

Hamingja og réttlæti

Að menntaskóla loknum lá leið Andra Snæs í Háskólann þar sem hann reyndi fyrir sér í læknisfræði líkt og fleiri fjölskyldumeðlimir höfðu gert með góðum árangri.

„Ég skrifaði súrar smásögur á meðan ég reyndi við klásusinn og komst ekki inn eftir fyrstu önnina og skráði mig beint í íslensku, ég var búinn að gefa út þrjár bækur áður en námi lauk,“ segir hann. Árið 2000 fékk Andri Snær íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Söguna af bláa hnettinum, þá nýútskrifaður íslenskufræðingur og aðeins tuttugu og sex ára að aldri. Bókin naut mikillar hylli bæði hérlendis og erlendis en hún hefur verið þýdd á þrjátíu tungumálum. Þrátt fyrir að bókin sé skrifuð sem barnabók og börn upplifi hana sem spennandi ævintýri þá skynja þeir sem eldri eru ýmsar hnattrænar samlíkingar og pólitískan undirtón.

„Hún er í rauninni mjög pólitísk en það gerðist sjálfkrafa í skrifunum og vekur hún upp ýmsar grundvallarspurningar um hamingju og réttlæti.“ Þjóðleikhúsið setti upp leikrit eftir bókinni árið 2001 en einnig hefur það verið sett upp víða um heim og nú síðast í Danmörku. Aðspurður segist Andri Snær lítið skipta sér af uppsetningum og túlkun á verkinu, þvert á móti þyki honum lærdómsríkt að upplifa verkið frá öðru sjónarhorni en sínu eigin.

„Mér finnst alltaf erfitt að fara á frumsýningar án þess að hafa séð verkið áður en um leið finnst mér áhugavert að gefa fólki frelsi til að túlka verkið á sinn hátt og sjá hversu ólíkt það getur orðið á milli heimsálfa.“

Óafturkræfar ákvarðanir

Andri Snær ólst upp með sterkum fyrirmyndum með ævintýralegum blæ frá unga aldri sem án efa hefur haft mikil áhrif á ungan dreng. „Ég hef átt góðar fyrirmyndir, margar sterkar konur, en systir mín er fyrsti heilaskurðlæknirinn, amma ein fyrsta konan til að fljúga og svo er mamma mikil kjarnakona. Ég er kominn af miklu fjallafólki, amma og afi í Hlaðbæ voru frumkvöðlar í Jöklarannsóknarfélaginu og svo afi og amma á Melrakkasléttu sem voru alger villibörn. Síðan á ég afa í Ameríku og afasögurnar þar eru öðruvísi en aðrar afasögur.

Það eru sögur af því þegar Íranskeisari og Oppenheimer lágu á skurðarborðinu og systir hans var barnfóstra hjá Tolkien,“ segir hann. Sem barni var Andra Snæ kennt að umgangast náttúruna af virðingu og skildi hann snemma hversu viðkvæmt hálendi Íslands væri. Með þessa hugsjón og sterka réttlætiskennd í farteskinu tók Andri Snær þá hugrökku ákvörðun að skrifa bókina Draumalandið þar sem hann deilir skoðunum sínum á stóriðjustefnu stjórnvalda á Íslandi með þjóðinni.

„Ég tók sjensinn á því að fæla frá ákveðinn lesendahóp sem myndi hafa skoðanir á því sem ég var að skrifa um í Draumalandinu. Hún fjallar samt ekki fyrst og fremst um virkjanir, hún fjallar meira um hugmyndir og hvað gerist þegar við missum hæfileikann til að ímynda okkur aðra möguleika en til dæmis stóriðjustefnuna.“

Bókin fékk íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2006 og mætti segja að hún hafi brotið blað í umhverfisvitund þjóðarinnar með hreinu og skýru orðalagi Andra Snæs.

„Oft eru fræðimenn hreinlega að fela hluti með dulkóðuðu orðalagi og það sem ég hélt að yrði leiðinlegast við bókina varð að lokum skemmtilegast. Hvernig setur maður þrjátíu teravattstundir í samhengi svo fólk skilji það sem talað er um? Hvað eru þetta margir fossar, margar ár og svo framvegis. Fólk er ekkert heimskt, það er hægt að skilja langflesta hluti séu þeir settir í rétt samhengi.“

Þrátt fyrir að bókin hafi komið út fyrir hartnær tíu árum hefur hún sjaldan átt eins vel við og í dag þar sem stjórnvöld eru enn að velta fyrir sér óafturkræfum ákvörðunum um stóriðjustefnu landsins.

Andri Snær les fyrir börn frá Álandseyjum
Hnattrænt samhengi

Um þessar mundir vinnur Andri Snær að áhugaverðu verkefni sem sumir gætu túlkað sem sjálfstætt framhald af Draumalandinu. „Draumalandið byrjaði eiginlega sem fyrirlestraröð sem blés út og varð bók og kvikmynd. Ég er eiginlega kominn á sama stað aftur, er með efni sem endar líklegast sem bók og kvikmynd. Ekki beinlínis framhald því hnattræna samhengið er stærra. Þarna reyni ég að skapa heildarmynd úr alls kyns brotum og áhrifum undanfarinna ára. Þetta byrjaði eiginlega á tveimur viðtölum við Dalai Lama sem ég tók á Íslandi og Indlandi.“

Ástríða Andra Snæs fyrir umhverfinu á sér engin takmörk og hefur hann verið ötull talsmaður bættrar framtíðarsýnar landsins.

„Draumalandið hefur fylgt mér og ég tók þátt í að skipuleggja Gætum garðsins-tónleikana og tengist verkefni eða draumi um að skapa heildstæðan þjóðgarð eða friðland á miðhálendi Íslands. Ég tel að þetta væri framsýn gjöf til komandi kynslóða og kannski það merkilegasta sem okkar kynslóð gæti ,,skapað“.

Það er einstakt að eiga það sem við eigum og væri skammsýni að skera með raflínum eða skerða með frekari stíflum.

Við eigum Aldeyjarfoss, Þjórsárver, Sprengisand og Fjallabak og mögnuð víðerni. Íslendingar eiga nú þegar gnægð auðlinda sem hver og ein ætti að duga 300.000 manna samfélagi.

Við veiðum 2% af öllum fiski í heiminum, framleiðum fimmfalt meiri orku en við getum torgað, fáum fleiri ferðamenn á mann og eigum síðan heitt og kalt vatn og ágætt ræktarland miðað við höfðatölu. Ef okkur skortir eitthvað og ,,neyðumst“ til að fórna hálendinu þá erum við bara að reyna að sanna að jörðin sé óbyggileg.

Andri Snær á göngu upp á Skeiðarárjökli
Engin kjarnorkuvísindi

Andri Snær liggur ekki á skoðunum sínum þegar rætt er um stærsta atvinnuveg landsins, ferðaþjónustuna, og telur að mörgu sé ábótavant sem að þeim geira snýr.

,,Við erum auðvitað að upplifa ákveðna holskeflu núna, ekki síst þar sem menn hafa laðað fólk til landsins án þess svo mikið sem að byggja pall við Geysi. Það eru ekki kjarnorkuvísindi að byggja pall. Það er ágætt pláss fyrir fullt af fólki á Íslandi ef við kunnum að stýra flæðinu. Og við eigum að nota ferðaþjónustuna til að efla innviði sem við gætum aldrei byggt sjálf og gera líf okkar betra. Við komumst auðveldlega frá landinu með því að vera samferða ferðamönnum og veitingaflóran er stærri og betri en að sama skapi væri gaman að sjá eitthvað byggjast upp sem við gætum líka notað. 

Hvernig væri hjólastígur frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði og kannski bara allan hringinn? Suðurlandið er flatara en Holland og væri gaman að fara það með fjölskyldunni.

Hvernig væri að búa til ótrúlega spennandi náttúruminjasafn sem væri í Smithsonian-gæðaflokki sem gerði alla náttúrufræðikennslu á Íslandi meira spennandi?

Hvar eru handritin? Hvernig væri handritasýning sem býr til áfangastað fyrir ferðamenn jafnframt sem það gerir alla íslenskukennslu spennandi?

Konungsbók Eddukvæða er einn merkilegast gripur í Evrópu, það er bara kalt mat – ekki þjóðremba,“ segir Andri Snær að lokum, með hausinn fullan af sögum og hugmyndum sem bíða þess eins að rætast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.