Ég bjó í blokk fyrstu fimm ár ævi minnar og á góðar minningar um gamla konu sem bjó í íbúðinni á móti okkur. Hún passaði mig stundum og gaf mér kandís. Ég var að rifja þetta upp með móður minni um daginn og spurði hvort þetta gæti ekki passað. „Nei, hún passaði þig aldrei,“ fullyrti mamma. „Hún bauð þér stundum inn til sín vegna þess að hún vorkenndi þér.“ Vorkenndi mér? Um hvað var móðir mín eiginlega að tala? „Hún vorkenndi þér vegna þess að krakkarnir í blokkinni góluðu á eftir þér „stóri haus, stóri haus“.“ Ég fékk kökk í hálsinn og hitnaði allur í framan. Stóri haus? Var mér strítt á höfuðstærð minni í æsku? Var ég höfuðstór sem barn? Er ég það kannski enn?
Síðan ég heyrði þetta hef ég hugsað um fátt annað. Ég er búinn að renna yfir hverja einustu ljósmynd sem tekin hefur verið af mér og jú, miðað við þær er ég kannski með svolítið stóran haus, sérstaklega ef ég er með öðru fólki á mynd. Þá er blöðruhausinn minn áberandi stærri en höfuð hinna. Og þegar ég pæli í því þá hefur yfirleitt verið vesen að finna húfur og hatta sem passa á mig. Ég þarf líka tvöfaldan skammt af verkjalyfjum til þess að losna við hausverk. En af hverju er ég að heyra af þessu fyrst núna?
Það liggur beinast við að kenna höfuðstærðinni og stríðni vegna hennar í æsku um allt sem farið hefur úrskeiðis í mínu lífi. Það er eiginlega óhugsandi að þetta hafi ekki haft nein varanleg áhrif á mig. Allavega virðist heilinn í risahausnum mínum hafa blokkað út þessa minningu og það er þekkt að fólk gleymir stundum hræðilegustu hlutunum. Alvarlegast þykir mér samt að vinir mínir hafi aldrei haft orð á þessu. Mér líður eins og eg sé búinn að vera með opna buxnaklauf í tvo áratugi og enginn hafi þorað að segja mér það.
Bakþankar