Sport

Helga María í sjöunda sæti á sterku svigmóti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helga María Vilhjálmsdóttir.
Helga María Vilhjálmsdóttir. Vísir/Ernir
Helga María Vilhjálmsdóttir náði sínum besta árangri á svigmóti þegar hún fékk 25,76 FIS-punkta fyrir að ná sjöunda sætinu á á alþjóðlegu svigmóti í Hinterstoder í Austurríki í dag.

Helga María átti mjög flotta seinni ferð en hún var í þrettánda sæti eftir fyrri ferðina. Helga María var lengi með besta tímann en á endanum komust sex stelpur upp fyrir hana.

Helga María varð 1,25 sekúndum á eftir hinni bandarísku Brittany Phelan sem er fjórum árum eldri en hún. Helga María var auk þess einni sekúndu frá verðlaunasæti.

Helga María náði með þessu að fylgja eftir góðrum árangri sínum á síðustu dögum en hún varð í tólfta sæti í svigmóti á sama stað í gær og endaði í öðru sæti á alþjóðlegu svigmóti í Bad Wiessee í Þýskalandi á þriðjudaginn.

Þetta er því búin að vera frábær vika fyrir Helgu Maríu. Næstu daga mun Helga María keppa á tveimur svigmótum í Austurríki áður en hún keppir svo í stórsvigi í Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×