Handbolti

Óheppnin eltir Guðmund - besta vinstri handar skyttan meiddist

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kasper Söndergaard varð fyrir samskonar meiðslum á ÓL 2012.
Kasper Söndergaard varð fyrir samskonar meiðslum á ÓL 2012. Vísir/Getty
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins, hefur þegar misst einn leikmann í HM-hópnum og nú á annar í hættu á að missa af HM í handbolta í Katar.

Kasper Söndergaard, besta örvhenta skytta Dana, meiddist á vinstri þumalfingri á æfingu í gær og danskir miðlar segja frá því að HM sé í hættu hjá kappanum enda meiðslin á skothendinni.

Áður hafði leikstjórnandinn Morten Olsen nefbrotnað á æfingu og þá hefur Bo Spellerberg verið að glíma við meiðsli á hæl þó svo að hann sé byrjaður að æfa á ný.

Fyrsta stórmót Guðmundar með danska landsliðið fer því ekki vel af stað en miklar væntingar eru bundnar við danska liðið á heimsmeistaramótinu.

Kasper Söndergaard er þó staðráðinn í að spila í gegnum meiðslin sem hann sagði í viðtali við Ekstra Bladet vera samskonar og hann varð fyrir á Ólympíuleikunum í London. Hann spilaði í meira en hálft ár með spelku.

Í morgun kom í ljós að Kasper Söndergaard er ekki brotinn sem eru góðar fréttir. Hann ætti því mögulega að geta spilað með spelku á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×