Guðmundur Guðmundsson ætlar sér stóra hluti með Dani á HM enda með eitt besta landslið heims í höndunum.
Landsliðsþjálfari Dana hefur gefið það út að liðið ætli sér að minnsta kosti að komast í undanúrslit á HM en sá árangur myndi tryggja liðinu sæti á ÓL í Ríó árið 2016.
„Við ætlum í undanúrslit. Þetta mót snýst líka um að komast á Ólympíuleikana. Ríó er tryggt ef við förum í undanúrslit," segir Guðmundur og minnir einu sinni sem oftar á að liðið mæti erfiðum liðum á HM.
„Það má alls ekki gleyma því að við erum í gríðarlega erfiðum riðli. Þýskaland og Rússland eru til að mynda mjög sterkir andstæðingar. Okkur hlakkar til mótsins og við höfum trú á því að við munum standa okkur vel."
Danir unnu eins marks sigur, 24-23, á Svíum á mánudag og taka svo þátt í sama æfingamóti og Ísland um helgina.
„Æfingar hafa gengið vel og strákarnir eru að leggja hart að sér. Við höfum verið að fara í gegnum marga hluti á æfingum. Það var gott að vinna Svía og ég var ánægður með margt í þeim leik en ég er búinn að horfa aftur á leikinn og það tvisvar."
Guðmundur er enn með 19 manna æfingahóp en nota má 16 leikmenn á HM. Guðmundur er ekki búinn að ákveða lokahópinn.
Handbolti