Bílar

Athygliverðir hugmyndabílar síðasta árs

Finnur Thorlacius skrifar
Toyota FT-1 er vonandi grunnurinn af nýjum Supra bíl.
Toyota FT-1 er vonandi grunnurinn af nýjum Supra bíl.
Toyota FT-1  var ekki hannaður í Japan heldur hjá hönnunardeild Toyota í Kaliforníu þar sem bílar Toyota fyrir Bandaríkjamarkað eru hannaðir. Hann var sýndur á bílasýningunni í Detroit seint í fyrra. Ekki kæmi á óvart ef þessi bíll yrði lagður til grundvallar nýjum Toyota Supra og víst er að fáum myndi leiðast það.

Volkswagen XL Sport.
Volkswagen XL Sport  er með yfirbygginguna frá hinum straumlínulagaða XL-1 en með Ducati V-twin mótorhjólamótor. Volkswagen XL-1 er einn sparneytnasti bíll heims og eyðir aðeins 1 lítra eldsneytis á hverja hundrað kílómetra. Volkswagen á ítalska mótorhjólafyrirtækið Ducati og því full ástæða til að sameina það besta frá báðum fyrirtækjum og skapa með því fisléttan sportbíl sem góð eftirspurn gæti orðið eftir.

Renault Eolab.
Renault Eolab  er líkt og Volkswagen XL-1 bíll sem eyðir aðeins 1 lítra og var sýndur á bílasýningunni í París sl. haust. Eolab er hugarfóstur tæknimanna Renault sem höfðu það að markmiði að búa til bíl sem eyddi sem minnstu eldsneyti. Því var ekki einblínt á ytra útlit bílsins, nema hvað varðar lága vindmótsstöðu hans, en þessi bíll er í grunninn Renault Clio. Vonandi kemst þessi eyðslugranna útgáfa hans af teikniborðinu og í fjöldaframleiðslu.

Renault KWID.
Renault KWID  vakti mikla athygli á bílasýningunni í Nýju Delí í Indlandi í febrúar í fyrra. Hann er ætlaður fyrir Indlandsmarkað og verður framleiddur sem næst þessu útliti í sameiginlegri verksmiðju Nissan og Renault í Indlandi strax á þessu ári. Bíllinn er það breiður að 3 farþegar sitja hlið við hlið frammí bílnum en aðeins er pláss fyrir tvo afturí. Bíllinn er mjög stuttur, innan við 4 metrar að lengd. Hann er með 1,2 lítra bensínvél með forþjöppu og 120 hestöfl.

Volvo Concept Estate.
Volvo Concept Estate  sem sýndur var á bílasýningunni í Los Angeles seint á síðasta ári þótti einstaklega fallegur bíll, í senn sportlegur sem tignarlegur með sínar fáguðu og fáu línur. Af þeim gullfallegu þremur hugmyndabílum sem Volvo hefur sýnt á síðustu misserum, Volvo Coupe, XC Coupe og Estate er talið líklegast að þessi Estate hugmyndabíll rati í fjöldaframleiðslu, en hann er notadrjúgur langbakur, eitthvað sem Volvo hefur verið þekkt fyrir að framleiða gegnum árin.

Audi Prologue.
Audi Prologue  var sýndur á bílasýningunni í Los Angeles. Hann verður ekki framleiddur nákvæmlega eins og hér sést, heldur gefur hann tóninn fyrir næstu kynslóðir Audi A6, Audi A7 og Audi A8 bílanna. Auk þess gæti Audi sett á markað A9 bíl, sem fyrirtækið hefur lengi dreymt um í samkeppninni við S-Class bíla Benz og hann yrði ef til vill líkastur þessum tilraunabíl. Þarna þykir Audi hafa tekist einkar vel til og spennandi verður að sjá bílana sem af honum fæðast.

Kia GT4 Stinger.
Kia GT4 Stinger  var sýndur á bílasýningunni í Detroit og þykir fagur bíll. Bílaáhugamenn hafa vonað að með honum sé Kia loksins að stimpla sig inn í framleiðslu sportlegra bíla með krafta í kögglum, en Kia hefur hingað til verið þekktast fyrir framleiðslu ódýrra fjölskyldubíla. Það var yfirhönnuður Kia, hinn þýski Peter Schreyer, sem áður vann fyrir Audi og Volkswagen, sem hannaði þennan bíl. Hann er með 315 hestafla 2,0 lítra forþjöppudrifna vél.






×