Bílar

Lítill pallbíll frá Hyundai

Finnur Thorlacius skrifar
Hyundai Santa Cruz.
Hyundai Santa Cruz.
Hyundai kynnir nú þennan litla pallbíl á bílasýningunni í Detroit, en hann er eins og samsuðu jepplings og pallbíls og hefur fengið nafnið Santa Cruz. Þessi bíll er ekki, líkt og aðrir pallbílar, stór, eyðslufrekur né dýr. Líklega er því þarna kominn einn ódýrast pallbíll sem fást mun.

Hyundai hefur ekki staðfest að þessi bíll verði framleiddur og því er kynning hans sennilega til þess ætluð að fá viðbrögð við honum áður en ákvörðun verður tekin. Hyundai segir hinsvegar að kannanir sem fyrirtækið hefur gert bendi til þess að mikill markaður sé fyrir svona bíl, ekki síst í Bandaríkjunum.

Hann sé hentugur bíll fyrir allt aðra kaupendur en hingað til hafa valið sér pallbíla, fólk sem stundi útivist og taki gjarnan með sér búnað, svo sem hjól eða brimbretti. Hyundai segir að meðalverð á pallbílum nú sé um 38.000 dollarar og það háa verð hindri það að margir fái sér pallbíl þó þörfin fyrir slíkan bíl sé til staðar. Það verði leyst með þessum bíl sem gæti orðið svo ódýr sem á 22.000 dollara.

Hann verður með 2,0 lítra túrbínudrifna dísilvél sem skilar 190 hestöflum til allra hjólanna. Hann mun eyða milli 7 og 8 lítrum á hverja hundrað kílómetra og því verður hann mun hagkvæmari í rekstri en flestir aðrir pallbílar.

Svona bílar eins og Hyundai Santa Cruz hafa áður verið framleiddir og ekki selst vel. Dæmi um það eru Subaru Brat frá níunda áratug síðustu aldar og Subaru Baja bíllinn sem kom fram uppúr síðustu aldamótum. Það gæti þó hjálpað til við sölu svona bíls að pallbílamarkaðurinn í Bandaríkjunum er sá sem vex hraðast um þessar mundir. 

Hyundai Santa Cruz séður að framan.





×