Sport

Williams eftir úrslitaleikinn: Verð að óska Sharapovu til hamingju

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Williams var auðmjúk eftir sigurinn.
Williams var auðmjúk eftir sigurinn. vísir/getty
Serena Williams vann í morgun sinn sjötta sigur á Opna ástralska meistaramótinu í tennis þegar hún bar sigurorð af Mariu Sharapovu í úrslitaleik. Williams var auðmjúk að leik loknum og bar lof á andstæðing sinn.

„Ég verð að óska Mariu til hamingju, hún spilaði frábæran leik og veitti mér harða keppni,“ sagði Williams eftir sigurinn en hún hefur nú unnið 16 leiki í röð gegn Sharapovu.

„Hún spilaði svo vel og þetta var frábær úrslitaleikur, ekki einungis fyrir áhorfendur, heldur einnig fyrir tennis kvenna í heild sinni. Það var mér sannur heiður að keppa við hana í úrslitaleiknum.“

Williams, sem hefur nú unnið 19 risatitla á löngum og farsælum ferli, leit einnig til baka í sigurræðu sinni.

„Ég var ekki efnuð þegar ég var að alast upp en ég átti góða fjölskyldu sem studdi við bakið á mér. Að standa hér með 19. risatitilinn er eitthvað sem ég hélt að myndi aldrei gerast.

„Ég fór út á völl með bolta, spaða og von í brjósti, það var allt sem ég hafði. Og þetta er hvatning fyrir ykkur sem eruð þarna úti og viljið skara fram úr - þið getið það, ekki gefast upp.

„Ég er svo stolt af því að hafa unnið minn 19. risatitil,“ sagði hin 33 ára gamla Williams að lokum en hana vantar aðeins þrjá risatitla til að jafna met hinnar þýsku Steffi Graf sem vann 22 risatitla á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×