Bílar

Eru mengunarmælingar dísilbíla tóm tjara?

Finnur Thorlacius skrifar
Mengun yfir París.
Mengun yfir París.
Lítið sem ekkert er að marka niðurstöður mælinga á mengun frá nýjum dísilbílum, bæði fólks og vörubílum. Evrópuráðið ýtir því á það að nýjar reglur um þessar mælingar verði lögfestar hið bráðasta.

Nýju reglurnar eiga að tryggja það að mælingarnar, sem bílaframleiðendur sjálfir sjá um, gefi rétta mynd af mengun frá bílunum í raunverulegri notkun sem þær alls ekki gera nú. Sumir bílaframleiðendurnir þumbast hins vegar við og vilja fá lengri aðlögunartíma. Félag Íslenskra Bifreiðaeigenda hefur vakið athygli á þessu í grein á vef sínum.

Sjöfalt meiri mengun

Kirsten Brosbøl umhverfisráðherra Danmerkur hefur mælst til þess að að dönsku fulltrúarnir í bílanefnd Evrópuráðsins greiði atkvæði með innleiðingu nýju reglnanna á fundi nefndarinnar næstkomandi msem fram fór 26. Janúar síðastliðinn.Sérstakar rannsóknir og prófanir hafa leitt í ljós að útblástur natríumoxíðsambanda (NOx) frá nýjum dísilbílum er að meðaltali sjöfalt meiri í raunverulegri notkun bílanna heldur en hann má vera samkvæmt reglum.

Þetta þýðir einfaldlega það að flestir dísilbílar sem fengið hafa gerðarviðurkenningu í seinni tíð hefðu alls ekki með réttu átt að fá hana, en fengu hana vegna þess að þær mælingaaðferðir sem beitt var voru rangar og gáfu kolrangar niðurstöður.

Danir þrýsta á nýjar reglur

Þess vegna vill danski umhverfisráðherrann, Kirsten Brosbøl, að ný mælingaaðferð og -tækni verði lögfest hið allra fyrsta svo að bílaframleiðendur geti brugðist sem fyrst við og endurbætt bílana og vélarnar þannig að mengunin frá þeim verði innan settra marka. Nokkrir bílaframleiðendur telja það ómögulegt og hafa óskað eftir lengri aðlögunartíma.

Í tillögunum að nýjum mælingareglum og -aðferðum segir að mælingarnar skuli framvegis sýna NOx mengun frá nýjum bílum í raunverulegri notkun. Allir dísilknúnir fólks- og vörubílar sem sótt er um gerðarviðurkenningu fyrir í Evrópu skuli í mengunarpróf og standast lágmarkskröfur laga og reglna áður en gerðarviðurkenning fæst.

Frakkar vilja losna við dísilbíla

Frakkar hafa vaknað við vondan draum hvað mengun frá dísilbílum áhrærir og nýjar niðurstöður um mengun þeirra hefur orðið til þess að ríkisstjórn Frakklands hefur tekið til þess ráðs að skattleggja dísilbíla helst útaf markaðnum. Markmið lagasetningarinnar er greinilega á þá lund að losna við dísilbíla af götum Frakklands, en á undanförnum árum hafa hátt í 80% allra nýrra seldra bíla þar í landi verið með dísilvélum, sökum lágrar eyðslu þeirra.

Borgarstjóri London, Boris Johnson hefur einnig skorið upp herör gegn dísilbílum og reyndar í leiðinni notkun allra bíla í borginni. Johnson hefur lagt til að breska ríkið greiði eigendum dísilbíla allt að 2.000 pundum ef þeir afleggja dísilbíla sína fyrir bensínbíla. Það gæti hinsvegar kostað breska ríkið 300 milljón pund og því stendur tillaga hans í mörgum.

Skemmst er að minnast þess að alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur skilgreint útblástur frá dísilbílum krabbameinsvaldandi og það með óyggjandi hætti, en ekki sem líklegum krabbameinsvaldi.






×