Viðskipti innlent

Eggert Benedikt hættir hjá N1

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eggert Benedikt Guðmundsson var forstjóri N1 þegar félagið var skráð á markað.
Eggert Benedikt Guðmundsson var forstjóri N1 þegar félagið var skráð á markað. vísir/gva.
Eggert Benedikt Guðmundsson hefur komist að samkomulagi við stjórn N1 um að hann láti af störfum hjá félaginu. Við starfinu tekur Eggert Þór Kristófersson fjármálastjóri N1. Sá fyrrnefndi hefur verið forstjóri N1 frá árinu 2012.

Með þessum breytingum hyggst stjórn N1 leggja áherslu á að lækka kostnað við yfirstjórn félagsins. Í tilkynningu kemur fram að nú þegar liggur fyrir að framkvæmdastjórum N1 mun fækka um einn þar sem ekki verður endurráðið í stöðu framkvæmdastjóra markaðssviðs, sem nýverið lét af störfum hjá félaginu. Staða fjármálastjóra verður auglýst laus til umsóknar á næstunni.

„Þegar Eggert Benedikt var ráðinn til N1 stóðu miklar breytingar fyrir dyrum. Skráning félagsins á markað hafði verið ákveðin og lauk henni í desember 2013. Auk þessa voru gerðar viðamiklar skipulagsbreytingar sem m.a. fólu í sér stofnun Bílanausts og síðar sölu þess til þriðja aðila. Breytingar voru gerðar á vörustjórnun og birgðahaldi, m.a. með sameiningu á lagerhaldi félagsins í einu húsnæði í Klettagörðum. Þá var rekstrarkostnaður lækkaður með margs konar hagræðingu. Eggert Benedikt hefur leitt þessi verkefni og stjórnað þeim á farsælan hátt. Við viljum nota tækifærið og þakka Eggerti Benedikt fyrir góð störf og óska honum velgengni í framtíðinni“ segir Margrét Guðmundsdóttir stjórnarformaður N1 í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×