Innlent

Gufubað hefur góð áhrif á æðakerfið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Guðmundsson, læknir, segja að setja megi finnsku rannsóknina í samhengi við áhrif streitu á heilsuna.
Sigurður Guðmundsson, læknir, segja að setja megi finnsku rannsóknina í samhengi við áhrif streitu á heilsuna. Vísir
Ný finnsk rannsókn sem birtist í tímariti Bandarísku læknasamtakanna sýnir fram á samband gufubaða og tíðni kransæðasjúkdóma, og annarra hjarta-og æðasjúkdóma, í körlum á aldrinum 40-60 ára. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að því oftar sem mennirnir fóru í gufubað, og því lengur sem þeir voru þar inni, minnkuðu líkurnar á því að mennirnir dæju úr þessum sjúkdómum.

Alls voru 2300 finnskir karlmenn skoðaðir, allir frá austurhluta Finnlands, þar sem kransæða-og hjartasjúkdómar eru einna tíðastir.

„Því oftar sem menn fóru í saunu þeim mun betur gekk þeim. Það voru um 40-60% minni líkur á að menn dæju úr þessum sjúkdómum ef þeir fóru 4-7 sinnum í saunu á viku. Það er því greinilega mjög sterkt samband þarna á milli. Þá skiptir líka máli hvers lengi menn voru í saunu allt í allt yfir vikuna. Þeir sem voru minna en 11 mínútur fengu minnst út úr þessu en þeir sem voru lengur en 19 mínútur í heildina stóðu sig best og fengu mest út úr þessu,“ sagði Sigurður Guðmundsson, læknir, í Reykjavík síðdegis í gær um niðurstöður rannsóknarinnar.

Sigurður sagði að það hefði verið vitað fyrir að heit böð hefðu almennt góð áhrif á blóðrásina. Síðan væri hægt að setja rannsóknina í samhengi við áhrif streitu á heilsu. Margar rannsóknir hefðu sýnt fram á að álag og streita eykur tíðni á kransæðasjúkdómum. Til að mynda jókst tíðni kransæðasjúkdóma verulega hjá íslenskum konum í vikunni sem hrunið varð 2008.

„Það er því hægt að spekúlera í því að manni líður vel bara við það að fara í saunu. Menn slaka á, gleyma áhyggjum og amstri lífs. Það er alveg ljóst að það hefur áhrif á vellíðan og því fleiri þannig stundi sem menn eiga, það getur lengt og bætt líf. Svo fara menn væntanlega sjaldan einir í saunu, og maður er auðvitað manns gaman, og það eykur líka vellíðan.“

Hlusta má á viðtalið við Sigurð í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Braust inn í sundlaug og fór í gufubað

Lögreglan handtók karlmann á þrítugsaldri á innbrotsstað í sundlaug í Hafnarfirði um klukkan hálf átta í gærkvöldi. Hann var þar í mestu makindum í gufubaði þegar laganna verðir komu að honum. Ekki kemur fram hvort hann var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, eða hvort hann hafi ætlað að stela einhverju í leiðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×