Körfubolti

Sjáðu allar galdrakörfur Bonneau í lýsingu Svala: „Hann er bara skyr og massi“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stefan Bonneau, leikstjórnandi Njarðvíkur, fór á kostum í sigurleik liðsins gegn Stjörnunni í gær þegar Njarðvíkingar tóku forystuna í einvígi liðanna, 2-1.

Þessi ótrúlegi leikmaður skoraði 45 stig, gaf 10 stoðsendingar og tók sex fráköst, en sumar körfur hans voru hreint út sagt lygilegar.

Svali Björgvinsson lýsti leiknum í beinni útsendingu í gær ásamt Arnari Björnssyni og fór Svali einnig á kostum að vanda.

Hann reyndi að koma orðum yfir gæði og hæfileika Stefans í leiknum og tókst það nokkrum sinnum ágætlega.

Nokkrar setningar Svala um Bonneau:

„Þetta er náttúrlega algjörlega fáránlegt. Þetta er alveg ótrúlega vel gert.“

„Hann er bara að sópa. Þetta er bara fáránlegt!“

„Þetta er bara galdrakallaskot. Þetta er ekki í kennslubókum af þeirri ástæðu að þetta er ekki hægt. Það er ekki hægt að gera þetta. Það er óþarfi að kenna þetta því þetta er ekki framkvæmalegt.“

„Hann syndir í gegnum þetta. Hann frystir þá alla.“

„Enn og aftur fer hann bara og dansar. Hann er með samning við körfuboltaguðina þessi maður. Ég veit ekki hvernig maður fær slíkan samning.“

„Hann er ekkert nema skyr þessi maður. Bara skyr og massi.“

„Hvaða rugl er þetta? Þetta er bara svindl. Hann er með fleiri spjöld en hinir. Þetta er tekið af tólf metra fjarlægð.“

Allar körfur Bonneau fyrir utan vítaskotin má sjá í spilaranum hér að ofan í lýsingu Arnars Björnssonar og Svala Björgvinssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×