Handbolti

Gunnar: Ég sækist eftir því að vinna undir pressu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Magnússon með Íslandsbikarinn sem ÍBV vann undir hans stjórn fyrir tæpu ári síðan.
Gunnar Magnússon með Íslandsbikarinn sem ÍBV vann undir hans stjórn fyrir tæpu ári síðan. Vísir/Stefán
Gunnar Magnússon, sem gerði ÍBV að Íslandsmeisturum í Olís-deild karla í handbolta í fyrra og bikarmeisturum í ár, verður næsti þjálfari Hauka eins og kom fram á Vísi fyrr í dag.

Gunnar tekur við Haukaliðinu af Patreki Jóhannessyni sem sagði upp starfi sínu á dögunum og ætlar að einbeita sér að austurríska landsliðinu.

Eftir fimm ár í Noregi og Vestmannaeyjum fannst Gunnari kominn tími til að flytja aftur í bæinn og þá var ekki erfitt að segja við við Hauka.

„Samningaviðræður voru ekkert langar. Fyrst og fremst vildum við fara flytja í bæinn eftir að vera fimm ár á flakki; þrjú ár í Noregi og tvö ár í Vestmannaeyjum. Það var kominn tími á að færast nær fjöslskyldunni,“ sagði Gunnar Magnússon við Vísi í dag.

„Þegar sú ákvörðun var tekin og Haukar komu inn í spilið var þetta ekki erfið ákvörðun. Haukar eru frábært félag og eitt af toppliðum hérna á Íslandi. Ég er stoltur að taka við þessu starfi.“

Síðustu tveir þjálfarar Hauka hafa verið Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Íslands, og Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis. Metnaðurinn er mikill að Ásvöllum og krafa um titla mikil.

„Þessu sækistu eftir. Maður vill vinna undir pressu og vinna á toppnum,“ sagði Gunnar um pressuna sem fylgir starfinu.

„Það er líka pressa að þjálfa í Vestmannaeyjum. Þar ertu ekki bara með félagið á herðunum heldur allt bæjarfélagið. Ég er vanur því og hef líka þjálfað erlendis og landsliðið þannig ég er öllu vanur.“

Gunnar er aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins en enn er óvíst hvort Aron Kristjánsson sinni því starfi áfram þegar samningur hans rennur út í júlí. En er Gunnar tilbúinn að aðstoða strákana okkar áfram?

„Ég skoða það bara í sumar. Ég hef verið lengi í kringum landsliðið og það verður að skoða í rólegheitunum í sumar. Fyrst og fremst sinni ég starfi mínu hjá Haukum,“ sagði Gunnar Magnússon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×