Lífið

Deilt um hvar halda eigi Eurovision ef Ástralía vinnur

Birgir Olgeirsson skrifar
Guy Sebastian flytur lag Ástrala í Eurovision.
Guy Sebastian flytur lag Ástrala í Eurovision. Vísir/Getty
Þrátt fyrir að tæpur mánuður sé í fyrsta undankvöldið í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, þá eru strax hafnar deilur um hvar halda eigi keppnina að ári fari svo að Ástralir fari með sigur af  hólmi.

Ástralíu var boðið að vera með í keppninni í ár sem „sérstakur gestur“ vegna pólitískra tengsla við Evrópulönd og í tilefni af því að sextíu ár eru síðan fyrsta Eurovision-keppnin var haldin. Keppnin nýtur gífurlegra vinsælda í Ástralíu og hefur verið sýnt frá henni þar í landi síðastliðin 30 ár.

Segja má að deilurnar um hvar halda eigi keppnina að ári ef Ástralía vinnur hafi byrjað á þriðjudag þegar Christer Björkman, sem fer fyrir Eurovision-nefnd Svía og skipulagningunni á Melodifestivalen, undankeppninni í Svíþjóð, sagði að Þjóðverjar myndu hreinlega taka það verk að sér að halda keppnina með Áströlum í Þýskalandi að ári fari svo að ástralska lagið fari með sigur af hólmi.

Þetta sagði hann í þættinum Inför Eurovision í sænska ríkissjónvarpinu þegar hann og Sarah Dawn Finer ræddu keppendur og undirbúning fyrir Eurovision-keppnina sem er handan við hornið.

Sarah spurði hreint út: „Ef Ástralir vinna, hvar verður keppnin haldin?“

Eurovisionvefurinn ESCToday hafði samband við þýska ríkisútvarpið til að fá þeirra hlið á málinu. Doktor Frank-Dieter Freiling, hjá þýska ríkisútvarpinu, var til svara og hafði þetta að segja:

„Ef Ástralir vinna Eurovision í ár þá verður næsta keppni haldin í Evrópu, af praktískum ástæðum. Í því ljósi koma fjöldi Evrópuþjóða til greina, og þar eru Þjóðverjar ekki undanskildir. Samstarf Ástrala við þessar þjóðir verður aðeins rætt fari svo að Ástralir vinni keppnina. Við leggjum áherslu á að ógætileg ummæli herra Björkman eru ótímabær.“

Það er Guy Sebastian sem mun flytja lagið Tonight again fyrir hönd Ástrala.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.