ÍR-ingarnir Arnar Pétursson og Aníta Hinriksdóttir voru hlutskörpust í Víðavangshlaupi ÍR sem haldið var í 100. sinn í miðbæ Reykjavíkur í hádeginu.
Að venju var keppt í 5 km götuhlaupi og kom Arnar í mark á 15 mínútum og 35 sekúndum. Ingvar Hjartarson, Fjölni, var aðeins einni sekúndu á eftir Arnari en Sæmundur Ólafsson, fR, varð þriðji á 15:50 mínútum.
Aníta hafði talsverða yfirburði í kvennaflokki. Hún kom í mark á 17:10 mínútum, rúmri mínútu á undan Maríu Birkisdóttur, stöllu sinni úr ÍR. Jóhanna Skúladóttir Ólafsdóttir, úr skokkhópi KR, varð þriðja á 18:43 mínútum.
Metþáttaka var í hlaupinu í dag en af þeim 1205 sem voru skráðir til leiks luku 1171 hlaupari keppni. Gamla metið var 535 þátttakendur.
Víðavangshlaup ÍR hefur verið haldið í sumarbyrjun ár hvert í heila öld og er meðal elstu almenningshlaupa Evrópu, eftir því er fram kemur í tilkynningu frá ÍR.
Sport