Fjármálaráðuneytið hefur opinberað tillögur stærstu kröfuhafa föllnu bankanna sem sögð eru uppfylla stöðugleikaskilyrði ríkisstjórnarinnar um afnám fjármagnshafta.
Á vef fjármálaráðuneytisins hafa verið birtar tilkynningar um hvaða eignir stærstu kröfuhafar slitabúa Kaupþings, Glitnis og Gamla Landsbankans hafa lagt til að verði stöðugleikaframlag slitastjórnanna.
Framkvæmdahópur um afnám fjármagnshafta hefur staðfest að tillögur kröfuhafanna séu í samræmi við þau stöðugleikaskilyrði. Því leggur framkvæmdahópurinn til að veitt verði undanþága frá gjaldeyrishöftum á grundvelli tillagna kröfuhafa í slitabú Kaupþings.
Fáist slíkt samþykkt bæði af Seðlabankanum og á kröfuhafafundi munu þær eignir sem eftir verða í slitabúunum eftir greiðslu á svokölluðu stöðugleikaframlagi ekki lengur sæta gjaldeyrishöftum. Þær eignir koma þá til útgreiðslu til kröfuhafa í slitabúisins samkvæmt tilkynningu á vef ráðuneytisins.
Gangi þetta eftir munu slitabúin ekki þurfa að greiða stöðugleikaskatt sem að öðrum kosti hefðu lagst á eignir slitabúanna um næstu áramót né sæta gjaldeyrishöftum á Íslandi.
Tillögur kröfuhafa uppfylla stöðugleikaskilyrði
