Lífið

Stjörnuspá Siggu Kling - Krabbi: Taktu eftir hamingjunni

Sigga Kling skrifar
Kraftmikli hugaði krabbinn minn. Þú ert svo ótrúlega heiðarlegur, kraftmikill og skapandi. En þú verður að vita að þú mátt skipta um skoðun og setja kraft inn í nýja atburðarás í lífi þínu.

Eftir því sem líður á sumarið verður mikil spenna í ástarorkunni þinni og krabbinn þarf að passa sig á framhjáhöldum og svoleiðis forboðnum ávöxtum. Þú þarft að ganga hreint til verks, það er annaðhvort já eða nei og það mun frelsa þig frá öllu. Þessi orka er líka í kringum þig í því sem þú ert að gera. Þá máttu ekki vera með loðin svör né leiðandi.

Ekki fjárfesta í neinu nema þú sért tilbúinn að tapa því. Þetta sumar er til þess að taka áhættu í lífinu og þetta verður sumar ferðalaga. Þú átt eftir að rekast á fólk sem þú hefur ekki hitt í fjölmörg ár og ný vináttusambönd hefjast, en önnur hætta.

Það er nefnilega þannig, elskan mín, að þegar allt virðist vera að fara til andskotans þá opnast himnaríki á jörðu. Ef þú skoðar það betur þá er eins og þú sért að breyta um fatastíl. Útlitið á þér er að breytast, þú ert einhvern veginn ánægðari með þig núna en fyrir nokkrum mánuðum. Taktu betur eftir hamingjunni, hún býr heima hjá þér núna.

Mottó:

Það er aldrei of seint að lifa.



Frægir krabbbar: Bryndís Schram fyrirmyndin mín, Sigga Lorange ostabúðarskvísa, Auddi Blö sem við elskum öll, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og dúlla, Ólafur Stefánsson handboltakappi og heimspekingur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.