Lífið

Stjörnuspá Siggu Kling - Tvíburinn: Heppnin verður ríkjandi

Sigga Kling skrifar
Elsku hressandi tvíburi. Þú ert á blómatímabili núna. Þegar maður er á blómatímabili þá byrjar maður að tína arfann. Þú ert að láta ofur smáar hindranir stoppa þig, en steinhættu því. Ef þú reynir ekki að gera hlutinn þá veistu aldrei af hverju þú ert að missa. Það er svo sannarlega hægt að segja það að sumarið sé tími tvíburans. Þetta er sólríkasta dýrið af þessum tólf stjörnumerkjum.

Það er mjög algengt að tvíburinn vilji dvelja lengi í útlöndum eða hafa mikla sól, svo ég ráðlegg þér bara að hætta að væla yfir veðrinu og fjárfesta í fleiri hitalömpum. Jafnvel ertu að íhuga að flytja þig til í stuttan eða langan tíma.

Júní er mánuðurinn sem þú þarft að gera plön. Hættu að biðja þann eða þá sem hindrar þig um ráðleggingar.

Það er dálítil viðkvæmni í ástinni af þinni hálfu. Það er bara þannig að tvíburinn þarf að vera „all in“ eða „all out“. Ekki ruglast þótt þú fáir ólíkar hugmyndir, því orkan mun sjá um að þú takir rétta stefnu.

Merkúr er á fullum krafti að teikna fyrir þig ótrúlega spennandi mánuð sem markar nýtt upphaf hjá þeim tvíburum sem vita hvað þeir ætla að gera. Ég ráðlegg þér, kæri tvíburi, að skrifa niður þrjátíu atriði á fimm mínútum, um hvað þú myndir gera ef þú ættir ár eftir ólifað. Þá fyrst sérðu hver þú í raun og veru ert.

Þú ert búinn að aðstoða marga og gefa öðrum styrk, svo alheimurinn mun launa þér greiðann nú á næstunni og heppni verður ríkjandi yfir þennan tíma.

Mottó:

Ég skal og ég get.

Frægir tvíburar: Örn Árnason leikari, Óli Geir Jónsson plötusnúður, Bjarni töframaður, Össur Skarphéðinsson húmoristi, Johnny Depp leikari, Páll Magnússon fjölmiðlamaður.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×