Lífið

Búið að loka fyrir sölu á miðum í Color Run

Atli Ísleifsson skrifar
Ræst verður í hlaupið klukkan 11 og að loknu hlaupi verður eftirpartý með dönsurum, kynnum, plötusnúð og litabombum.
Ræst verður í hlaupið klukkan 11 og að loknu hlaupi verður eftirpartý með dönsurum, kynnum, plötusnúð og litabombum. Vísir/Getty
Búið er að loka fyrir sölu á miðum í The Color Run by Alvogen. Uppselt varð í hlaupið fyrr í kvöld, en það fer fram í Reykjavík á laugardaginn.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum keppninnar segir að upphaflega hafi orðið uppselt fyrir tveimur vikum en aðstandendur gátu útvegað meira litapúður frá samstarfsaðilum á Norðurlöndum svo hægt var að bæta við miðum í hlaupið. „Þó var vitað að þeir viðbótarmiðar myndu ekki duga fyrir þeirri eftirspurn sem var í hlaupið og er nú svo komið að það er uppselt þó enn séu nokkrir dagar í hlaupið.“

Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri The Color Run á Íslandi, segir það vera frekar undarlega tilfinningu að loka fyrir sölu. „Mörgum þykir það sjálfsagt skrítið að það sé uppselt í hlaup því það er nóg pláss á götunum en þetta er ekkert hefðbundið hlaup. Í okkar tilfelli er þörf á litapúðri fyrir þann hóp sem kemur til með að hlaupa og miðað við það magn sem við erum með af púðri þá er einfaldlega orðið fullt í hlaupið. Við erum strax farnir að fá símtöl þar sem við erum hvattir til að panta bara meira púður með flugi en það er hægara sagt en gert. Ef það væri lítið mál þá myndum við að sjálfsögðu gera það.“

Áríðandi að miðaeigendur sæki hlaupagögn

The Color Run verslun opnaði í Hörpu síðastliðinn laugardag þar sem þátttakendur fá afhent hlaupagögn sín. Þegar aðeins tveir dagar eru í hlaupið er um helmingur þátttakenda búinn að sækja hlaupagögnin.

„Við höfðum vonað að fleiri væru búnir að sækja pakkann sinn en þetta þýðir bara að það verður aðeins meiri örtröð í búðinni síðustu tvo dagana. Við höfum því ákveðið að lengja aðeins opnunartímann og næstu tvo daga verðum við með opið til klukkan 22 fimmtudags- og föstudagskvöld. Og ítrekum að hlauparar verða að ná í gögnin fyrir helgi. Svigrúm til að afhenda hlaupagögn í Hljómskálagarðinum er takmarkað og má gera ráð fyrir því að það verði ansi tímafrekt,“ segir Davíð.

Upphitun fyrir The Color Run by Alvogen hefst klukkan 9 á laugardagsmorgun. Ræst verður í hlaupið klukkan 11 og að loknu hlaupi verður eftirpartý með dönsurum, kynnum, plötusnúð og litabombum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×