Lífið

Of Monsters and Men í þriðja sæti Billboard-listans

Beneath the Skin gerir það gott þessi dægrin.
Beneath the Skin gerir það gott þessi dægrin. Vísir
Önnur hljóðversplata Of Monsters and Men, sem ber heitið Beneath the Skin, náði í dag þeim árangri að ná þriðja sæti á bandaríska Billboard-listanum.

Þetta kemur fram á vefsíðu listans sem gefinn er út vikulega og greinir frá vinsælustu og söluhæstu hljóðplötunum vestanhafs.

Platan hefur selst í 57 þúsund eintökum í Bandaríkjunum og er þetta besti árangur sem sveitin hefur náð til þessa en fyrri breiðskífa sveitarinnar, My head is an animal, náði hæst sjötta sæti listans árið 2012. Hún seldist í 55 þúsund eintökum á einni viku.

Platan náði einnig þeim árangri að vera sölushæsta breiðskífan á sölulista iTunes í liðinni viku.

Sveitin skýtur með árangri sínum þekktum sveitum á borð við The Rolling Stones, Ed Sheeran, Florence + and the machine og A$AP ROCKY ref fyrir rass.

Efstir á listanum trónir breska rokksveitin Muse með sjöundu plötu sinni, Drones,en þetta er í fyrsta sinn sem sveitin kemst á topp bandaríska vinsældalistans.

Í öðru sæti er plata Taylor Swift, 1989 sem seldist í 64 þúsund eintökum í vikunni.

Of Monsters and Men  er um þessar mundir á stífu tónleikaferðalagi og kom til að mynda fram í sjónvarpsþáttunum vinsælu Good Morning America og The Tonight Show With Jimmy Fallon á dögunum. Í bæði skiptin lék sveitin lagið Crystals. Sveitin verður á ferðalagi það sem eftir ef af árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×