Fundi fjármálaráðherra evruríkjanna um málefni Grikklands lauk nú síðdegis án samkomulags.
Alexander Stubb, fjármálaráðherra Finnlands, greindi frá því á Twitter-síðu sinni að vinnan haldi áfram en að ekki yrði fundað frekar í dag.
Fundi fjármálaráðheranna lauk skömmu eftir að leiðtogar aðildarríkja ESB komu saman til fundar í Brussel. Ráðherrarnir höfðu rætt umbótatillögur varðandi fjármál Grikkja, bæði frá grískum stjórnvöldum og lánadrottnum þeirra - framkvæmdastjórn ESB, Evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Að sögn Reuters er haft eftir Angelu Merkel Þýskalandskanslara að samkomulag verði að liggja fyrir áður en markaðir opna á mánudag.
Grikkir verða að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1,6 milljarða evra lán fyrir þriðjudaginn næstkomandi eða þá standa frammi fyrir greiðslufalli.
Merkel: Samkomulag verður að liggja fyrir fyrir opnun markaða á mánudag

Tengdar fréttir

Tsipras heldur áfram að reyna að semja við kröfuhafa
Samningaviðræður Grikkja við kröfuhafa ríkisins virðast komnar í strand.