Lífið

Feðraveldið rassskellt á Hvaleyrinni

Jakob Bjarnar skrifar
Brynjar horfir sér til hrellingar á enn eitt pútt Kristínar rata í holuna. Þorgerður sviptir stönginni úr áður en brestur á með þessu hljóði sem golfarar elska: Þegar kúlan hringlar í holunni.
Brynjar horfir sér til hrellingar á enn eitt pútt Kristínar rata í holuna. Þorgerður sviptir stönginni úr áður en brestur á með þessu hljóði sem golfarar elska: Þegar kúlan hringlar í holunni. visir/jakob
„Jájá. Feðraveldið verður að svara því,“ sagði Brynjar Níelsson (19,5) alþingismaður spaugsamur, en fastur fyrir þegar blaðamaður (18,7) hringdi í hann að morgni laugardags og spurði hvort hann væri ekki örugglega búinn að reima á sig skóna; og útskýrði fyrir honum að þeir tveir væru að fara að keppa í golfi við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur (17,7), fyrrverandi varaformann Sjálfstæðisflokksins, nú forstöðumaður hjá SA og Kristínu Pétursdóttur(8,5) stjórnarformann Virðingar hf.

Kristín hafði, kvöldinu áður, talið einsýnt, þegar rætt var um hverjir væru saman í liði, að það væru stelpur á móti strákum. „Í tilefni dagsins,“ en þá var Kvennadagurinn mikli, 19. júní.

Klár í slaginn og í baksýn er glæsilegt klúbbhús Keilis á Hvaleyrinni í Hafnarfirði.visir/jakob
Keppnisfyrirkomulagið „róninn“

Það viðraði vel til golfiðkunar, gola af hafi og milt í veðri. Við vorum að fara að spila einn af allra bestu völlum landsins. Keilisvöllinn á Hvaleyrinni í Hafnarfirði.

„Sá eini á Íslandi sem hefur komist á topp hundrað lista yfir bestu golfvelli í Evrópu, þá fyrir utan Bretland,“ segir Ólafur Þór Ágústsson vallarstjóri og kynnir á Golfstöðinni. Og það kom á daginn að þar var engu logið, völlurinn var í fínu ástandi, flatirnar frábærar og öll umhirða til fyrirmyndar.

Valsmaðurinn Brynjar var á útivelli; blaðamaðurinn, Þorgerður Katrín og Kristín eru hins vegar öll FH-ingar og Hafnfirðingar. Keilisvöllurinn er heimavöllur kvennanna og þær áttu eftir að nýta sér það.

En, það var ekki vitað á þessari stundu. Brynjar og blaðamaðurinn voru býsna brattir og keppnisfyrirkomulagið var ákveðið – „róninn“, eins og það er kallað í golfklúbbi Setbergs: Besta skor gefur einn punkt, samanlagt liðsins einn punkt og einn aukapunktur gefur fugli.

Þorgerður Katrín á 1. teig. Glæsileg golfsveifla og strax þarna fór um golfjournalistann; þetta verður erfitt.
Lævíst ráðabrugg Þorgerðar Katrínar

Golfhringur Golfsíðunnar var meðal annars lagður upp með það fyrir augum að heyra hvað klukkan slær í innviðum Sjálfstæðisflokksins.

Fyrir löngu var ákveðið að keppa við Þorgerði Katrínu og svo var hugmyndin að freista þess að fá Bjarna Benediktsson formann út á völl og svo Ragnheiði Ríkharðsdóttur þingflokksformann, og ganga svo lymskulega á formanninum með fulltingi Evrópuarms flokksins, með ýmsar spurningar.

En, Bjarni, sem er liðtækur golfari, tók erindinu vel en átti ekki heimangengt, var grasekkill þessa helgina og Ragnheiður taldi golfgetu sína ekki þannig að hún ætti heima til frásagnar í fjölmiðlum.

Óli Þór Vallarstjóri gaf ekkert eftir með það að Keilisvöllurinn væri sá besti á landinu, og hann lýgur ekki miklu hvað það varðar.visir/jakob
Brynjar var fyrsti kostur í fjarveru formanns en þegar möguleikum varðaði 4. mann var velt upp, og það er svo sem ekkert auðugan garð að gresja þegar golf og stjórnmálamenn eru annars vegar, þá tók Þorgerður ætíð vel í hinar og þessar hugmyndir, nema kom þeirri hugmynd alltaf að, svona í aukasetningu: Svo væri náttúrlega voðalega gaman að fá Kristínu Péturs.

Já, það vantaði ekkert uppá það; Kristín var góður kostur en það kom seinna í ljós að þetta var útreiknað bragð af hálfu Þorgerðar Katrínar. Kristín er frábær golfari – fulltrúar Feðraveldisins áttu eftir að komast að því fullkeyptu.

Valsmaðurinn og alþingismaðurinn kominn út í hraun, en bjargar sér meistaralega með góðu vippi inná flöt.visir/jakob
Fulltrúar feðraveldisins sáu aldrei til sólar

Þetta byrjaði rólega, stelpurnar náðu einum punkti strax á fyrstu holu og stöðugt seig á ógæfuhliðina fyrir fulltrúa Feðraveldisins. Og þegar Kristín negldi niður fugli á sjöundu, þá var útlitið orðið verulega svart.

Eftir fyrstu níu, Hraunið, þá stóðu leikar þannig að stelpurnar voru yfir með níu punkta. Það reyndist of mikill munur. Og þó tækist að halda seinni níu í sæmilegu jafnvægi, þá brugðust pútt blaðamannsins algerlega þegar færi voru á stigasöfnum uppí skaðann.

„Þú hugsar alltof mikið til vinstri,“ sagði Brynjar þegar blaðamaðurinn lokaði pútterhausnum einu sinni sem oftar og rúllaði kúlunni fram hjá holunni. Vinstra megin, enn og aftur. Og það fór ekkert á milli mála að þessi setning mátti alveg vera tvíræð.

Þorgerður Katrín tók sig vel út á Keilisvellinum en í baksýn glittir í álverið. Þorgerður heldur því fram að þarna í Hafnarfirði séu undirstöðuatvinnuvegirnir í öndvegi; sjávarútvegur, stóriðja og ferðaþjónusta.visir/jakob
Þó voru þarna taktar, eins og þegar Brynjar náði að bjarga sér glæsilega uppúr einni af hinum djúpu og grimmu glompum Hvaleyrinnar og einpútta. En, það dugði hvergi til.

Og Þorgerður Katrín og Kristín voru sem einn maður, þá sjaldan að það hökti í frábærri spilamennsku Kristínar, þá var það yfirleitt þegar Þorgerður var að slá vel og náði að verja fenginn stigahlut.

„Þú verður að láta það koma skýrt fram að þetta var FH að leggja Val,“ sagði Þorgerður Katrín. Og hlustaði ekki á að blaðamaður væri FH-ingur, það taldist ekki með.

Þær geta verið grimmar, glompurnar á Hvaleyrinni. En, þó hökt kæmi á leik Kristínar, þá voru þær sem einn maður og Þorgerður Katrín varði punktana ef til þess kom.visir/jakob
Pólitík rædd í klúbbhúsinu

Oft var rauðu kvennateigunum blótað. Þeir eru nær holu en gulu karlateigarnir og stundum fannst Brynjari þeir vera nánast í flatarkantinum. Þá var leikurinn líka svo gott sem tapaður.

Og það var svo enn til að strá salti í sárin að báðir lentu blaðamaðurinn og Brynjar í misheppnuðu upphafshöggi; kúlan náði ekki fram fyrir kvennateiginn sem þýddi að þeir skulduðu mótherjunum bjór. Sem getur verið góður eftir hringinn í glæsilegu klúbbhúsi Keilis.

Þar lengdust eyru blaðamannsins, þegar farið var að ræða innanbúðarmál Sjálfstæðisflokksins.

Kristín Pétursdóttir. Bjórinn eftir hring bragðast vel og aldrei betur en þegar mótherjinn þarf að borga.visir/jakob
Þorgerði aftur í pólitíkina

„Það er búið að ákveða að þú kemur inn fyrir næstu kosningar,“ fullyrti Brynjar við Þorgerði Katrínu eftir að hann hafði keypt drykki á línuna, og vísaði til samtala milli sín og ýmissa áhrifamanna í flokknum.

Miðað við svipbrigði Þorgerðar Katrínar taldi hún þetta síður en svo fráleitt, en svo gaut hún hornauga á blaðamanninn og ákvað að rétt væri að gefa ekki út neinar yfirlýsingar. Blaðamaður spurði hvernig þeim Sjálfstæðismönnum litist á stjórnarsamstarfið? Löng þögn.

„Það eru margir góðir Framsóknarmenn,“ sagði Þorgerður Katrín.

Kristín taldi ekki fráleitt hún væri á leið í pólitík: „Eitthvað verður að gera.“ Þá eru menn helst á því að Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður muni hvergi gefa eftir hvað varðar sína stöðu innan flokks, og líkast til mun einhver bjóða sig fram gegn henni í varaformennskuna á næsta Landsfundi.

Svo var nú farið að ræða eitt og annað off rec – og víst verður að virða það.

Þessi ljósmynd segir eiginlega allt sem segja þarf; sigurvegarar og annar þeirra sem tapaði eru hér á mynd þegar langt er liðið á hringinn.visir/jakob

Tengdar fréttir

Glæpsamlega gott golfmót á Spáni

Þúsundir íslenskra golfara fara utan á ári hverju til að spila golf. Costa Blanca Open golfmótið var haldið nýlega á fjórum völlum á Alicante-svæðinu.

Rándýrt holl á Grafarholtsvelli

Í harðri rimmu á Grafarholtsvelli fór refurinn Jón Steinar með sigur af hólmi gegn blaðamanni Fréttablaðsins; með útsjónarsemi og þrautseigju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×