Íslenski boltinn

Formaður knattspyrnudeildar Selfoss: Verst hjá KSÍ að setja dómarann í þessa aðstöðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þjálfarar Selfoss létu skömmum rigna yfir dómaratríóið í hálfleik.
Þjálfarar Selfoss létu skömmum rigna yfir dómaratríóið í hálfleik. vísir/valli
„Við erum afar ósátt með þetta,“ sagði Óskar Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar Selfoss, í samtali við Vísi nú rétt í þessu, aðspurður um dómgæsluna í toppslag Breiðabliks og Selfoss í Pepsi-deild kvenna í gær.

Fanndís Friðriksdóttir skoraði eina mark leiksins úr umdeildri vítaspyrnu sem hún fiskaði sjálf.

Sjá einnig: Sjáðu vítið sem réði úrslitum | Dómarinn uppalinn Bliki.

Óánægja Selfyssinga snýr ekki einungis að dómnum sjálfum heldur þeirri staðreynd að dómari leiksins, hinn 21 árs gamli Helgi Mikael Jónasson, spilaði með Breiðabliki í yngri flokkunum. Óskar segir að honum hafi ekki verið gerður neinn greiði með að vera settur á þennan leik.

„Það er verst hjá KSÍ að setja dómarann í þessa stöðu þannig að það sé hægt að efast um það sem hann gerir,“ sagði Óskar.

„Við förum ekki í að skoða bakgrunn dómara fyrir alla leiki en það er KSÍ að setja ekki dómarana sína í þessa aðstöðu. Þetta er afskaplega óheppilegt og maður var undrandi þegar maður sá þessi tengsl.

„Svo var þetta auðvitað aldrei víti,“ sagði Óskar ennfremur og bætti því við að fyrst Helgi hefði dæmt víti á annað borð hefði hann átt að reka Summer Williams, varnarmann Selfoss, af velli því hún var aftasti varnarmaður. Gula spjaldið sem hann gaf Williams hafi því verið eins konar málamyndadómur.

„Manni fannst eins og hann hefði séð að sér um leið og hann var búinn að benda á vítapunktinn,“ sagði Óskar sem segir Selfyssinga bratta þrátt fyrir allt.

„Það þýðir ekki að vera reiður lengi heldur þarf bara að reima á sig skóna fyrir næsta leik. Svona gerist í fótboltanum, leikmenn og dómrarar gera mistök, en maður vildi að KSÍ myndi huga að þessum þætti þannig að svona aðstæður komi ekki upp aftur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×