Bílar

Betri fjárfesting í Ferrari en hlutabréfum í Ferrari

Finnur Thorlacius skrifar
Ferrari 250 GTO Berlinetta árgerð 1962.
Ferrari 250 GTO Berlinetta árgerð 1962.
Fiat Chrysler Automobiles er nú að setja hlutabréf í Ferrari á almennan markað, en Fiat hefur átt Ferrari til langs tíma. Þeir sem hugsað geta sér að fjárfesta í hlutbréfum í Ferrari ættu ef til vill að hugsa sig betur um og íhuga fremur kaup á gömlum Ferrari bíl þar sem þeir virðast vaxa hraðar í verði en hlutabréf í bílafyrirtækjum.

Frá árinu 2006 hafa til dæmis bílar Ferrari sem smíðaðir voru frá 1950 til 1980 sjöfaldast í verði og ganga nú kaupum og sölum á uppboðum fyrir stjarnfræðilegar upphæðir. Ferrari Testarossa sem framleiddir voru milli 1980 og 1990 tvöfölduðust í verði bara á síðustu 12 mánuðum og svona mætti lengi telja.

Dýrasti bíll sem seldur hefur verið í heiminum á uppboði var Ferrari 250 GTO sem seldist á 52 milljónir dollara fyrir tveimur árum, eða um 7 milljarða króna.

Þessi vöxtur í verði eldri gerða Ferrari bíla er miklu meiri en almennt gerist í hlutabréfum bílaframleiðendanna eða hjá ítölskum eða frönskum lúxusvöruframleiðendum. Þar hefur reyndar hlutabréfaverð vart tvöfaldast frá árinu 2006.

Einn kostur ætti líka að fylgja því að kaupa frekar gamlan Ferrari bíl umfram hlutabréf í Ferrari, en hann er sá að eiga og nota svo gamlan og klassískan eðalgrip sem bílar Ferrari eru. Í leiðinni verður reyndar líka að gæta þess að eyðileggja ekki fjárfestinguna með óvarlegum akstri.






×