Lífið

Drusluganga: Þjóðþekktir einstaklingar kalla eftir breytingu í nýju myndbandi

Atli Ísleifsson skrifar
Skipuleggjendur Druslugöngunnar segja að með myndbandinu vilji skipuleggjendur hvetja alla landsmenn til að deila sínu ákalli.
Skipuleggjendur Druslugöngunnar segja að með myndbandinu vilji skipuleggjendur hvetja alla landsmenn til að deila sínu ákalli.
Skipuleggjendur Druslugöngunnar birtu í dag myndbandið #drusluákall þar sem þjóðþekktir einstaklingar ásamt fleirum koma fram og kalla eftir breytingu í samfélaginu.

Myndbandið birtist undir myllumerkinu #drusluákall, en með því óska skipuleggjendur göngunnar eftir því að landsmenn láti sig málið varða og kalli eftir því sem þeim finnst mega betur fara í málaflokknum.

Í tilkynningu frá aðstandendum Druslugöngunnar segir að með þessu vilji skipuleggjendur hvetja alla landsmenn til að deila sínu ákalli, hvort sem það er á samfélagsmiðlum, á kaffistofunni í vinnuni, eða í saumaklúbbnum. „Með því vonast skipuleggjendur til að auka umræðuna um kynferðisofbeldi og hvernig við sem samfélag getum brugðist við því sem samfélagsvandamáli.

Áköllin í myndbandinu eru mjög fjölbreytt og lúta meðal annars að lögreglunni, dómsstólum, kerfinu sem tekur við þolendum og samfélagsins í heild sinni.

Druslugangan er vettvangur þolenda kynferðisofbeldis og hefur verið í forystu í baráttunni fyrir breyttu hugarfari og orðræðu um kynferðisofbeldi síðustu ár. Yfirlýst markmið göngunnar er að færa ábyrgð kynferðisglæpa af þolendum og yfir á gerendur og ítreka að klæðnaður, hegðun eða fas þolenda er aldrei afsökun fyrir slíkum glæpum.“

Druslugangan verður haldin í fimmta sinn þann 25. júlí næstkomandi. Gangan verður farin frá Hallgrímskirkju klukkan 14, niður Skólavörðustíg, Bankastræti og mun enda á Austurvelli þar sem við taka fundarhöld og tónleikar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.