Sex íslenskir áhugakylfingar eru á meðal keppenda á Evrópumeistaramóti einstaklinga í ár og hafa aldrei verið fleiri.
Haraldur Franklín Magnús úr GR lék á átta höggum undir pari eða 64 höggum samtals. Hann deilir efsta sætinu þessa stundina en kylfingar eiga eftir að ljúka keppni á fyrsta hring.
Gísli Sveinbergsson lék á 75 höggum eða +3 og Bjarki Pétursson lék á 77 höggum.
„Þetta gekk mjög vel og ég er mjög sáttur með þessa byrjun. Ég sló boltann vel og kom mér í mörg fuglafæri á hringnum. Lengdarstjórnunin í innáhöggunum er mjög mikilvæg og það tókst vel í dag. Í upphafshöggunum var ég aldrei í vandræðum og ég hitti allar flatir í tilætluðum höggafjölda. Markmiðið fyrir hringinn var að ná 18 pörum og það er alltaf gaman þegar fuglarnir detta inn,“ sagði Haraldur Franklín eftir hringinn í dag við golf.is.
Axel Bóasson, Andri Þór Björnsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eiga eftir að ljúka leik í dag.
Leikið er á Penati golfvallasvæðinu þar sem tveir 18 holu vellir eru en Jack Nicklaus hannaði báða vellina.
Aðeins stigahæstu kylfingarnir á heimslista áhugamanna fá keppnisrétt á þessu móti og er þetta metfjöldi hjá Íslendingum sem er ánægjuefni.
Þeir sem taka þátt fyrir Íslands hönd er: Axel Bóasson (GK), Andri Þór Björnsson (GR), Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR), Haraldur Franklín Magnús (GR), Bjarki Pétursson (GB) og Gísli Sveinbergsson (GK). Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari Íslands er með í för og verður keppendum til halds og trausts.
Haraldur Franklín og Ragnar Már Garðarsson úr GKG tóku þátt í fyrra á þessu móti þegar það fór fram í Skotlandi. Þeir komust ekki í gegnum niðurskurðinn.
Keppnisfyrirkomulagið er með þeim hætti að keppt er í höggleik og að loknum þriðja keppnisdegi komast 60 efstu áfram á lokakeppnisdaginn. Alls eru 144 keppendur sem komast inn á þetta sterka mót.
