Innlent

Heyrnarlaus fær ekki námsgögn: „Fáránlegt að við þurfum að höfða mál“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Íslenkt táknmál er móðurmál Andra Fannars Ágústssonar en námsefni er ekki til á máli hans.
Íslenkt táknmál er móðurmál Andra Fannars Ágústssonar en námsefni er ekki til á máli hans. mynd/björg hafsteinsdóttir
Tíu ára heyrnarlaus drengur fær námsgögn sín ekki þýdd yfir á táknmál. Kröfu þess efnis var vísað frá héraðsdómi í lok maí og staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu dómsins í síðustu viku.

Andri Fannar Ágústsson er nemandi við Holtaskóla í Reykjanesbæ en íslenskt táknmál er hans fyrsta mál. Í upphafi síðasta árs kom í ljós að það námsefni sem gert hafði verið ráð fyrir að hann myndi læra var ekki til á táknmáli.

„Hann er að byrja í sjötta bekk núna á næstu dögum,“ segir Björg Hafsteinsdóttir, móðir Andra Fannars. „Það er okkar val að hafa hann í almennum skóla og þetta hefur gengið vel. Hann er með góðan kennara og túlk en ekki námsefni á tungumáli sem hann skilur.“

Árið 2011 tóku gildi lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensk táknmáls en þar segir í 3. gr. laganna að „íslenskt táknmál sé fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja.“

„Það er í raun fáránlegt að við þurfum að höfða mál til að fá námsefni fyrir son okkar á tungumálinu hans þegar það er bundið í lög,“ segir Björg.

Ástráður Haraldsson, lögmaður Andra Fannars.vísir/ernir
Ekki dómstóla að ákveða hvað sé gefið út

Holtaskóli hafði samband við Námsgagnastofnun en í svarbréfi stofnunarinnar kom meðal annars fram að ekki hafi verið fært að laga efni að þörfum einstakra nemenda með ólíkar fatlanir. Ekki hafi heldur komið til tals að þýða efni einstakra námsgreina yfir á táknmál. 

Í nóvember á síðasta ári fór lögmaður Andra fram á það við Námsgagnastofnun að stofnunin myndi útvega námsgögn fyrir skjólstæðing sinn líkt og lög kvæðu á um. Svar stofnunarinnar var á þann veg að henni bæri ekki skyldu til að koma til móts við óskir stefnanda um að þýða námsefni yfir á táknmál. Stofnunin tæki mið af fjárheimildum fjárlaga og það væri einfaldlega ekki svigrúm til að koma til móts við Andra. 

Er málið var tekið fyrir hjá héraðsdómi kröfðust stefndu, íslenska ríkið og Reykjanesbær, þess að málinu yrði vísað frá á þeim grundvelli að Andri Fannar hefði ekki lögvarða hagsmuni í málinu og að svar Námsgagnastofnunar teldist ekki stjórnvaldsákvörðun heldur eingöngu álit. Að auki fælist það í kröfu stefnanda um að tilteknar bækur yrðu þýddar yfir á táknmál að dómstóllinn myndi seilast inn á svið sem heyrir undir stjórnvöld. Á þetta féllst héraðsdómur og Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu á þeirri forsendu að málatilbúnaðurinn uppfyllti ekki kröfum IV. kafla laga um meðferð einkamála.

Réttarfarslegt maus

„Þetta er eitt af þessum málum þar sem erfitt er að finna réttarfarslegu leiðina til að málið teljist dómhæft,“ segir Ástráður Haraldsson lögmaður Andra Fannars. Málið sé fræðilega mjög fólkið og það sé talsvert maus að útbúa kröfugerðina á réttan hátt. Næstu skref í málinu felist í því.

„Að því sögðu þá er ég fullkomlega ósammála niðurstöðu Hæstaréttar í þessu máli. Málinu er vísað frá á þeim grundvelli að það hafi verið einhvers konar tilætlun okkar að dómstólar tækju ákvörðun um hvaða efni yrði gefið út. Staðreyndin er sú að Námsgagnastofnun hefur ákveðið hvað skal gefið út, skólinn hans hefur ákveðið hvað skal kennt og við viljum aðeins að það sé aðgengilegt á móðurmáli Andra Fannars.“

„Samkvæmt íslenskum lögum, bæði jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, þá á námsefnið að vera aðgengilegt fyrir fólk sem hefur táknmál fyrir móðurmál,“ segir Ástráður. 

Móðir Andra Fannars segir vanþekkingar á málefnum heyrnarskerta gæta í kerfinu.mynd/björg
Mismununin það sárasta

Móðir Andra segir mismununina sem felst í núverandi kerfi vera sára. Hún hafi til að mynda átt í samskiptum við Huld Magnúsdóttur, forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, til að fá að vita hvernig fyrirkomulagið sé hjá þeim.

„Ef þú ert blindur eða sjónskertur þá pantarðu námsefnið með góðum fyrirvara og það er tilbúið þegar þú hefur nám. Hins vegar ef þú ert heyrnarlaus þá færðu ekkert. Níu stöðugildi starfa við þetta hjá sjónskertum en enginn hjá heyrnarlausum,“ segir Björg. Hún segir hins vegar sárast að í öllu þessu ferli þá hafi hún og maðurinn hennar, Ágúst Þór Hauksson, aldrei fengið að segja sína meiningu. 

„Það virðist vera ákveðið þekkingarleysi á málefnum heyrnarlausra í kerfinu. Í einhverjum greinargerðum virðist gert ráð fyrir því að Andri kunni að lesa en það er ekki svo. Ef hann kynni að lesa þá gæti hann notað sama námsefni og önnur börn og þyrfti ekki á þessari þýðingu að halda. Við værum aldrei að gera þetta að ástæðulausu.“

Næstu skref í máli Andra ráðast á næstu dögum. „Þetta stapp hefur tekið okkur ár núna en ég útiloka ekki að það komi til óvænt fjármagn og málið leysist. Þetta er allt saman ákveðin keppni við tímann og við viljum að þetta leysist sem fyrst en það verður framtíðin að leiða í ljós,“ segir Björg.

Holtaskóli verður settur mánudaginn eftir viku og hefur Andri Fannar þá nám í sjötta bekk. Námsefni fyrir hann er ekki tilbúið og ljóst að afar erfitt verður að haga málum þannig að það verði tilbúið er skólinn hefst.


Tengdar fréttir

Ráðherrann vill ekki áfrýja í túlkamálinu

Menntamálaráðherra mælir ekki með því að áfrýja máli þar sem ríkið var dæmt til að greiða fatlaðri stúlku miskabætur og útlagðan kostnað við túlkaþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×