Sport

Aldo ver titilinn gegn McGregor í desember

Kristinn Páll Teitsson skrifar
McGregor er stórskemmtilegur karakter.
McGregor er stórskemmtilegur karakter. Vísir/Getty
Samkvæmt Yahoo Sports er búið að ákveða að bardagi Conor McGregor og Jose Aldo sem átti upphaflega að fara fram þann 11. júlí síðastliðinn fari fram 12. desember í Las Vegas. Samkvæmt sömu heimildum mun Ronda Rousey ekki berjast sama kvöld.

Hinn brasilíski Aldo(26-1) þurfti að hætta við bardagann stuttu áður vegna meiðsla sem hann varð fyrir á æfingum en hann hefur titil að verja í léttvigtarflokknum. Var hann gagnrýndur af McGregor og Dana White, forseta UFC, en McGregor barðist við Chad Mendes í Las Vegas þar sem írski bardagakappinn hafði betur eftir tvær lotur.

McGregor sem er skemmtikraftur af bestu gerð hefur unnið fjórtán bardaga í röð, þar af sex í röð í UFC en eftir bardagann verður aðeins einn meistari. Í dag teljast þeir báðir vera meistarar eftir að fresta þurfti bardaga Aldo og McGregor.

Þá staðfesti White að hugmyndin um að Rousey myndi berjast sama kvöld hefði komið upp en til þess hefði þurft höll á stærð við heimavöll Dallas Cowboys sem tekur allt að 105.000 manns. Í stað þess fer bardaginn fram á MGM Grand í Las Vegas líkt og upphaflega stóð til sem tekur tæplega 17.000 manns.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×