Íslenski boltinn

Eyjakonur unnu Fylki í markaleik í Eyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigríður Lára Garðarsdóttir var hetja ÍBV í kvöld.
Sigríður Lára Garðarsdóttir var hetja ÍBV í kvöld. Vísir/Stefán
Sigríður Lára Garðarsdóttir tryggði ÍBV 3-2 sigur á Fylki í lokaleik 15. umferðar Pepsi-deildar kvenna í Vestmannaeyjum í kvöld.

Sigríður Lára skoraði sigurmarkið níu mínútum fyrir leikslok en það var í þriðja sinn sem Eyjakonur komust yfir.

ÍBV styrkti stöðu sína í fimmta sæti deildarinnar með þessum sigri og verður með í baráttunni um þriðja sætið við Selfoss og Þór/KA.

Cloe Lacasse og Þórhildur Ólafsdóttir höfðu báðar komið ÍBV yfir fyrr í leiknum en Fylkiskonur jöfnuðu í bæði skiptin, fyrst Aivi Luik og svo Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir.

Fylkir endaði leikinn tíu á móti ellefu en Ruth Þórðar Þórðardóttir fékk að líta rauða spjaldið hjá Bríeti Bragadóttur á 90. mínútu leiksins.

ÍBV komst aftur á sigurbraut eftir óvænt tap á móti KR í leiknum á undan en þetta var fimmti sigur liðsins í Eyjum í Pepsi-deildinni í sumar.

Þetta er aftur á móti endasleppt tímabil hjá Fylkisliðinu sem hefur tapað þremur leikjum í röð og fjórum af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni auk þess að detta út úr undanúrslitum bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×