Lífið

Blóðberg sýnd á  kvikmyndahátíð í Chicago

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Björn Hlynur leikstýrði myndinni. Hér má sjá hann spjalla við aðalleikarana á milli taka.
Björn Hlynur leikstýrði myndinni. Hér má sjá hann spjalla við aðalleikarana á milli taka. Vísir/Andri Marínó
Íslenska kvikmyndin Blóðberg eftir Björn Hlyn Haraldsson var á dögunum valin til þess að taka þátt á Chicago International Film Festival. Hún er ein af tveimur kvikmyndum sem voru valdar frá Skandinavíu. Um þessar mundir standa viðræður yfir um að gera hana að tólf þátta sjónvarpsseríu í Bandaríkjunum. Myndin var frumsýnd á Stöð 2 fyrr á árinu áður en hún fór í kvikmyndahús en það uppátæki vakti mikla lukku hér á landi.

„Við vorum að sýna myndina í Noregi á Haugasund Film Festival þar sem hún fékk jákvæðar viðtökur. Það er margt spennandi að gerast og hátíðin í Chicago er mjög stór og flott. Það er líka keppni sem er mjög spennandi en ég held við eigum góðan séns. Hún verður einnig frumsýnd í Bandaríkjunum á hátíðinni en þannig opnast nýr markaður fyrir okkur,“ segir Rakel Garðarsdóttir sem starfar hjá Vesturporti og framleiddi myndina.

Teymið á bakvið myndina er komið með umboðsmenn í Bretlandi en þau vinna eins og áður sagði að því að gera Blóðberg að sjónvarpsþáttum. „Það er allt á jákvæðri leið í þeim málum. Við erum enn að semja við sjónvarpsstöðvar og það er ekkert staðfest ennþá en þetta lítur vel út. Þetta yrðu þá 12 þættir í einni seríu sem yrði þá gerð fyrir Ameríkumarkaðinn.“

Rakel Garðarsdóttir er framleiðandi hjá Vesturport og vann að Blóðberg. Mynd/Valli
Þegar myndin var frumsýnd var farin heldur óhefðbundin leið en hún var sýnd á Stöð 2 eitt gott sunnudagskvöld. „Við vildum hafa þetta sem þægilegast fyrir áhorfandann. Þó að það sé alltaf stemning að hafa frumsýningar í kvikmyndahúsum þá er þetta stór markaður og það er allt að breytast. Við mundum tvímælalaust gera þetta aftur ef það mundi henta.“

Það er nóg um að vera hjá Vesturporti um þessar mundir en Rakel vinnur að heimildarmynd sem fjallar um matar- og tískusóun ásamt því að vera að framleiða kvikmynd um Vigdísi Finnbogadóttur. Vesturport er einnig að setja upp tvær leiksýningar í Þjóðleikhúsinu í vetur.


Tengdar fréttir

Senuþjófur á frumsýningu Blóðbergs

Sveinn Ólafur Gunnarsson leikari mætti galvaskur á frumsýningu myndarinnar Blóðbergs á föstudag með eiginkonu sína uppá arminn. Þau urðu þó frá að hverfa þegar rétt um korter var liðið af sýningu myndarinnar vegna skyndilegrar fæðingu sonar þeirra hjóna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×