Í flestum ríkjum Bandaríkjanna mega samkynhneigð pör nú gifta sig. Í mörgum ríkjum er það hinsvegar einnig löglegt fyrir vinnuveitendur að reka þessi hjón úr vinnu, fyrir leigusala að bera þessi hjón út og fyrir atvinnurekendur að neita þeim um þjónustu, eingöngu vegna kynhneigðar þeirra. „Það kemur kannski á óvart en mismunun gegn samkynhneigðum einstaklingum er lögleg í stórum hluta Bandaríkjanna,“ sagði Oliver.
„Ef þetta kemur þér á óvart, ekki örvænta, þú ert ekki einn um það,“ sagði Oliver. „Skoðanakönnun sem gerð var árið 2013 gaf til kynna að 70% af svarendum hélt að það væri ólöglegt að reka einhvern fyrir það eitt að vera samkynhneigður. Fólk heldur það vegna þess að því finnst að það ætti að vera satt.“
Þrjár dæmisögur
Máli sínu til stuðnings benti Oliver á þrjú nýleg dæmi. Félagssráðgjafi í Texas var rekinn eftir að unnusti hans kom til að aðstoða hann í vinnunni. Forseti samtakanna sem hann vann fyrir þótti það óþægilegt að hafa samkynhneigðan mann í vinnu.
Samkynhneigðu pari var vísað frá veitingastað í Texas vegna þess að veitingastaðurinn afgreiddi ekki samkynhneigt fólk. Ástæðan sem gefin upp var sú að á þessum veitingastað þætti það til siðs að menn létu eins og menn og konur eins og konur.
Barnalæknir í Michigan neitaði að sinna barni hjóna vegna kynhneigðar foreldranna. Hjónin kröfðust þess að læknirinn myndi sinna barninu en hann neitaði.
Þátturinn er sýndur í heild sinni á Stöð 2 á hverju þriðjudagskvöldi kl. 23.00, textaður.