Lífið

Stefndi á Ólympíuleikana í Sydney

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Stefán Jakobsson hljóp maraþonið á fjórum klukkustundum og 42 mínútum en þetta er í fyrsta sinn sem hann hleypur heilt maraþon.
Stefán Jakobsson hljóp maraþonið á fjórum klukkustundum og 42 mínútum en þetta er í fyrsta sinn sem hann hleypur heilt maraþon. Mynd/HrafnhildurOlgaHjaltadóttir
„Á sunnudagsmorgun þegar ég ætlaði að fara að standa upp úr rúminu var kerfið bara frosið, ég er búinn að vera eins og gamall bóndi eða mörgæs en þykir gríðarlega vænt um þessa verki og er hamingjusamur,“ segir tónlistarmaðurinn Stefán Jakobsson, sem er líklega þekktastur fyrir að vera söngvari hljómsveitarinnar Dimmu. Hann gerði sér lítið fyrir á Menningarnótt og hljóp heilt maraþon, ásamt því að spila á tvennum tónleikum með Dimmu.

Þrátt fyrir að hafa hlaupið rúma 42 kílómetra að deginum til þurfti hann að hlaupa meira um kvöldið. „Við vorum að spila á Arnarhóli á Tónaflóði en þegar við kláruðum þar þá átti ég að vera mættur á svið á Bar 11 þannig að ég þurfti að hlaupa þangað en það hafðist,“ segir Stefán og hlær.

Stefni á Ólympíuleikana

Hann hefur alla tíð verið mikill hlaupari og stefndi lengi vel á að keppa á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000. „Ég var mikill hlaupari sem unglingur en um átján ára aldur var ég orðinn frekar latur og fannst meira spennandi að spila á gítar og drekka bjór í partíum. Ég fór þó aftur í hlaupið þegar ég var 21 árs og keppti í meistaramótum en hef lítið hlaupið undanfarin ár,“ segir Stefán.

Hann er margfaldur Íslandsmeistari í millivegalengdahlaupum, 400 og 800 og 1500 metrum. Hann á fjórtán héraðsmet í Suður-Þingeyjarsýslu.

Hann hljóp maraþonið á tímanum fjórum klukkustundum og 42 mínútum en þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem rokkarinn hleypur maraþon. „Ég var ánægður með allt á milli fjögurra og hálfrar og fimm klukkustunda. Ég hljóp dálítið hratt til að byrja með, var kominn í tíu kílómetra á 59 mínútum.“ Hann byrjaði ekki að æfa af viti fyrir maraþonið fyrr en í júlí.

„Ég byrjaði að æfa markvisst í annarri viku í júlí, þá fór ég aðeins að taka þetta föstum tökum, fram að því var þetta bara fyrir aftan rassgatið á mér og ég hljóp kannski einu sinni í viku. Ég hljóp í kringum 140 km í júlí, lengsta hlaupið var 37 kílómetra langt, í kringum Mývatn,“ segir Stefán. Hann hljóp ásamt Sunnu Brá Stefánsdóttur, formanni Foreldrahóps gigtveikra barna, til styrktar gigtveikum börnum en Sunna Brá hljóp tíu kílómetra.

Hélt að tárin væru rigning

Maraþonið tók á og segist Stefán hafa fellt tár án þess að vita af því í raun. „Ég var ekkert særður eftir hlaupið, það komu samt þarna ákveðnir punktar í hlaupinu þar sem maður var að gefast upp en mér leið aldrei það illa að ég væri að fara beila á þessu. Þegar ég var kominn með 25 til 35 kílómetra er minnið bara móða hjá manni. Ég meira að segja grenjaði á leiðinni, ég veit ekki af hverju, þetta voru bara einhverjar tilfinningar, ég vissi ekki hvað var að gerast, fannst ég ekki geta andað en þá var þetta ekki neitt,“ útskýrir Stefán, sem er stoltur af tárunum sem láku í hlaupinu.

Seglið sem Sverrir Páll Snorrason hannaði til þess að hvetja Stefán í hlaupinu en hann táraðist er hann hljóp framhjá því.Mynd/SverrirPállSnorrason
Félagi Stefáns, Sverrir Páll Snorrason, peppaði hann mikið og var búinn að útbúa segl þar sem hann hafði fótósjoppað Stefán á mynd sem Forrest Gump hafði áður verið á. „Ég hljóp tvisvar sinnum fram hjá honum og í seinna skiptið sem ég hljóp fram hjá, hélt ég að það væri að fara rigna en þá voru þetta tár.“

Fleiri svokallaðir pepparar studdu hlauparana og má þar nefna Ómar Ragnarsson sem var staddur í undirgöngum í Elliðaárdalnum með rafmagnshjólið sitt.

Nóg fram undan

Það er nóg fram undan hjá Stefáni í tónlistinni því Sinfóníuhljómsveit Norðurlands gengur inn í heim þungarokkssveitarinnar Dimmu og ljær honum nýja vídd.

Julian Kershaw, sem er heimsþekktur útsetjari frá Englandi, mun taka þátt í verkefninu með Dimmu. Hann hefur nýlega unnið útsetningar fyrir Sir Paul McCartney, Richard Ashcroft og Elvis Costello. Ray Gwilliams sem hefur séð um vídeógrafíkina fyrir Sigur Rós mun hanna sjónrænan hluta sýningarinnar. „Það er mikil tilhlökkun og gleði í mínum herbúðum fyrir þessu spennandi verkefni,“ bætir Stefán við að lokum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×