Lífið

Öllum aldri fylgir viss sjarmi

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Magnús fagnar afmælisdeginum í faðmi fjölskyldunar.
Magnús fagnar afmælisdeginum í faðmi fjölskyldunar. Vísir/Stefán
„Tíminn líður mjög hratt,“ segir tónlistarmaðurinn Magnús Eiríksson sem er í dag sjötugur. Magnús hefur fyrir löngu skipað sér sess sem einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar.

Magnús segir það koma á óvart hve árin líða fljótt. „Ég myndi miklu frekar vilja vera þrítugur, mér líður þannig,“ segir hann á léttu nótunum. „Það er ekki ægilega spennandi að verða gamall,“ segir hann en dregur svo úr: „Jú, jú það er fínt. Það fylgir öllum aldri viss sjarmi ef maður kann að sjá hann.“

Magnús byrjaði um fimmtán ára aldur að spila á gítar með skólahljómsveitum og hefur verið að spila nánast síðan þá. En hvað er eftirminnanlegast frá ferlinum? „Það hlýtur að vera ferðin til Bergen, ef maður er alveg heiðarlegur,“ segir hann og vísar þá í fræga fyrstu þátttöku Íslendinga í Söngvakeppni Evrópska sjónvarpsstöðva. Lag Magnúsar, Gleðibankinn, keppti þar fyrir Íslands hönd.

Íslendingar voru sannfærðir um sigur og það varð hálfgerð þjóðarsorg þegar ljóst varð að lagið endaði í 16. sæti. „Það var mjög gaman þrátt fyrir þessi vonbrigði innan gæslappa að lenda í þessu fræga 16. sæti fyrstur,“ segir hann hlæjandi og segir mikilmennskubrjálæðið stundum vera að fara með þjóðina. „Við látum stundum eins og kjánar, eins og við séum milljónaþjóð.“

Magnús ætlar að halda upp á afmælið í dag með því að fara út að borða með sonum sínum þremur og fjölskyldum þeirra. En afmælinu verður svo fagnað ærlega þann 19. september næstkomandi með tvennum tónleikum í Hörpu þar sem farið verður yfir ferilinn. Þar mun hann koma fram ásamt þeim sem hann hefur spilað hvað mest með í gegnum tíðina, félögum sínum úr Mannakornum, Brunaliðinu og fleiri góðir. Magnús er spenntur fyrir tónleikunum. „Það er alltaf gaman að spila með góðu fólki,“ segir hann. „Við erum búin að vera æfa allt okkar líf,“ segir hann hlæjandi aðspurður um það hvernig æfingar fyrir stórtónleikana gangi.

Magnús segir auðvelt að svara því hvað standi upp úr við að ná þessum aldri. „Það er að vera ennþá lifandi, það er ekkert sjálfsagður hlutur. Það leggst allt vel í mig. Maður verður bara að vera jákvæður, þá gengur allt vel. Bara draga inn hornin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×