Lífið

Pungsveitt veröld mexíkóskrar glímu, rokkstjarna og líkamsræktarkappa

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hver er birtingarmynd karlmannslíkamans í samfélaginu ?
Hver er birtingarmynd karlmannslíkamans í samfélaginu ? mynd/geirix
Macho Man verður sýnt á Reykjavík Dance Festival & leiklistarhátíðinni Lókal, 27.ágúst í Hafnarhúsinu. Verkið er flutt af konu, dansaranum Sögu Sigurðardóttur, en í verkinu hreyfir hún sig meðal annars eins og glímukappi, rokkstjarna og Herra Ísland.

„Ég er sjálf ekki ókunn því að þurfa að setja mig í karlmannlegar stellingar, stunda framhaldsnám í fjármálahagfræði, en fjármálaheimurinn hefur lengi verið tengdur við karla í jakkafötum,“ segir Katrín Gunnarsdóttir sem vinnur þessa dagana að verkinu.

„Ég starfa einnig sem danshöfundur og mun frumsýna nýtt dansverk, KVIKA, í samstarfi við Þjóðleikhúsið næsta vor.“

Hún segir að þessi lífreynsla hennar úr tveimur ólíkum heimum hafi ratað í dansverkið Macho Man.

Hver er birtingarmynd karlmannslíkamans í samfélaginu ? Í dansverkinu „Macho man“ stígur Saga Sigurðardóttir á svið og galdrar fram tvíræðan heim þar sem  karlmannlegar hreyfingar eru nýttar til þess að skapa samhljóm á milli kvenkyns dansara og þess hreyfimynsturs sem kenndar eru við karlmennsku.

Katrín segir að verkið sé í raun pungsveitt veröld mexíkóskrar glímu, rokkstjarna og líkamsræktarkappa.

Grímuverðlaunahafinn Katrín Gunnarsdóttir er dansari, danshöfundur og hagfræðingur frá Reykjavík. Hún lærði nútímadans við Listaháskóla Íslands og síðar kóreógrafíu við ArtEZ Listaháskólann í Hollandi.

Sem dansari hefur Katrín unnið með Sögu Sigurðardóttur, Ernu Ómarsdóttur og leikstjóranum Kris Verdonck ásamt fleirum. Katrín hefur einnig starfað með sjálfstæðum sviðslistahópum, sinnt danskennslu og samið sviðshreyfingar fyrir leikhús. Hún er formaður Danshöfundafélags Íslands. Katrín mun frumsýna nýtt dansverk næsta vor, KVIKA, í samstarfi við Þjóðleikhúsið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×