Lífið

Björguðu gamalli bátsvél frá glötun

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Það var gaman að fást við þetta verkefni með góðum vinum,“ segir Gústaf Jónsson.
"Það var gaman að fást við þetta verkefni með góðum vinum,“ segir Gústaf Jónsson. Myndir/Guðmundur Bjarnason
 „Mér fannst þetta björgunarstarf skemmtilegt. Ég er hættur að vinna og hef ekkert betra að gera en stússast í einhverju svona,“ segir Gústaf Jónsson, tæknifræðingur í Garðabæ, glaðlega.

Þar er hann að tala um björgun June Munktell-bátsvélar af árgerð 1953 sem menn úr Arnfirðingafélaginu í Reykjavík inntu af hendi, ásamt nokkrum heimamönnum á Bíldudal.

Vélin og sá hluti bátsins Kára sem hífður var út í sjó og fylgdi henni yfir fjörðinn.
Guðmundur Bjarnason, skipstjóri á Árna Friðrikssyni og formaður Arnfirðingafélagsins, tekur undir orð Gústafs.

„Þetta var skemmtilegt verkefni sem 3-400 vinnustundir fóru í. Vélin var í bátnum Kára BA 265 sem hefur legið í fjörunni á Krosseyri við Arnarfjörð frá árinu 1984 og var orðinn gjörónýtur.

Kári BA 265 var súðbyrðingur, smíðaður úr furu og eik árið 1939 af Gísla Jóhannssyni (1912-1986) Um borð er Jóhann Gunnarsson vélfræðingur.
Við sem unnum við björgun vélarinnar munum flestir eftir hljóðinu í henni, þegar Jón Kr., jafnan kenndur við Gróhóla, reri á bátnum. 

Vélin var eins strokks og það komu hringir upp úr skorsteininum, svipað og sumir gera þegar þeir reykja. Svo þegar hraðinn jókst hurfu hringirnir og eftir það kom eitt og eitt púst annað slagið.“

Á leið yfir fjörðinn til Bíldudals aftan í bát Hlyns Björnssonar útgerðarmanns.
Gústaf lýsir björgunaraðgerðum nánar.

„Við fórum nokkrir vinir vestur í september í fyrra og fengum þokkalegasta veður. Það er enginn vegur að Krosseyri en við vorum fluttir frá Bíldudal á bátum og unnum í fjörunni í þrjá daga. Þar rifum við bátinn utan af vélinni og létum bara bitana og botninn sem hún stóð á fylgja henni, festum flotholt utan á hana og drógum fenginn yfir til Bíldudals.

Vélin utan við eina elstu smiðju landsins á Bíldudal.
Síðan var vélin flutt suður, sandblásin og lökkuð og sá sem vann mest við hana hér syðra var Jóhann Gunnarsson en margir lögðu hönd á plóg. Hún er orðin gerólík þeim ryðköggli sem við sóttum.“

June Munktell-vélin var eins sílindra, svokölluð glóðarhausvél. Við gangsetningu var toppstykki hennar hitað með mótorlampa þar til það var orðið glóandi. Þá var lyft undir ventlana og stóru og þungu svinghjóli snúið á eins mikla ferð og hægt var. Slegið var undan ventlunum þannig að vélin fór að þjappa og sprengja olíuna sem kom inn á stimpilinn og fór í gang.

June Munktell-vélar voru vinsælar eftir stríð og víða í heiminum eru til June Munktell-klúbbar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×