Lífið

Blindaðist á öðru auga eftir að hafa sofið með augnlinsur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Það er mikilvægt að hugsa rétt um augnlinsur sínar.
Það er mikilvægt að hugsa rétt um augnlinsur sínar. vísir/getty
Chad Groeschen, 39 ára gamall íbúi Cincinnati-ríkis, varð nýverið blindur á öðru auga. Ástæðan fyrir blindunni, hann sleppti því ítrekað að taka úr sér augnlinsur sínar.

Í síðasta mánuði fann hann fyrir örlitlum kláða í öðru auganu en sleppti því að gera eitthvað í því þar sem hann hélt það væri aðeins ofnæmi að stríða sér. Annað kom á daginn. Er hann vaknaði daginn eftir var hann hálf tuskulegur og leitaði til læknis sem skrifaði upp á lyf fyrir hann.

Lyfin gerðu ekkert enda ekki við réttum sjúkdómi. Er hann vaknaði daginn eftir var Groeschen með mikinn verk í auga og nær enga sjón. Hann leitaði til augnlæknis sem sagði að hann væri með svæsna bakteríusýkingu. Mynd af auga hans þann morguninn má sjá með að fylgja þessari slóð en varað er við henni.

Groeschen fékk sýkinguna þar sem hann sleppti því oft að taka augnlinsur sínar úr sér. Hann sagðist gera það um það bil einu sinni í viku. Það að sofa með augnlinsur eykur líkur á sýkingu mjög og eru mörg dæmi þess að fólk tapi sjón á þennan máta. Sund með linsur, það að nota linsur of lengi og að skipta ekki algerlega um linsuvökva eykur líkurnar einnig mjög.

Hvað Groeschen varðar hefur honum verið tjáð að eini möguleikinn til að fá fulla sjón á ný sé að láta græða nýja hornhimnu í augað. Hann vonar að saga sín verði öðrum víti til varnaðar.

„Ef eitthvað kemur fyrir augu þín leitaðu strax til sérfræðings og passaðu alltaf að þau séu nægilega rök,“ segir hann í samtali við BuzzFeed.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×