Lífið

Íbúar í Þingholtinu bjóða í vöfflu kaffi

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Valentína tekur þátt í fyrsta skiptið í dag en Þóra og Gunnar hafa tekið þátt frá upphafi. Þóra er yfirleitt með sjö vöfflujárn í gangi á menningarnótt.
Valentína tekur þátt í fyrsta skiptið í dag en Þóra og Gunnar hafa tekið þátt frá upphafi. Þóra er yfirleitt með sjö vöfflujárn í gangi á menningarnótt. Vísir/AntonBrink
Þessa Menningarnótt verður boðið upp á vöfflur í Þingholtunum níunda árið í röð. Í ár verða það níu heimili sem opna dyrnar og bjóða gestum og gangandi upp á heimalagaðar vöfflur með rjóma og sultu. Sumar fjölskyldurnar hafa verið með frá upphafi en aðrar eru að taka þátt í fyrsta skiptið. Á miðvikudaginn hittust allar fjölskyldurnar sem taka þátt í verkefninu til þess að bera saman bækur sínar.

Verkefnið var hugmynd nokkurra íbúa Þingholtanna árið 2007 og hefur gengið eins og í sögu síðan þá. Hugsjónin á bak við veislurnar er að sýna að íbúar í miðborg Reykjavíkur eru gestrisnir engu síður en íbúar landsbyggðarinnar t.d. íbúar Dalvíkur sem bjóða sínum gestum í fiskisúpu. Margir hafa verið það lengi að þeir hafa þróað með sér hefðir eins og að biðja gesti um að skrifa í gestabók eða bjóða upp á ýmis skemmtiatriði eða myndlistarsýningar.





Það hefur blússandi stemmari á Ingólfsstræto 21a í gegnum árin. Hér má sjá hljómsveitina Múrarar hita upp fyrir Menningarnótt.
Þóra Andrésdóttir og Gunnar Roach búa í Ingólfsstræti 21a og hafa boðið í vöfflur öll níu árin. „Við erum alltaf með sjö vöfflujárn í gangi. Það fá allir vöffludeig frá borginni en það dugar sjaldnast og ég er yfirleitt að hlaupa út í Bónus yfir daginn að kaupa ýmislegt þegar hlutirnir klárast. Við verðum með stútfulla tónlistardagskrá yfir allan daginn og höfum oft verið með. Retro Stefson spiluðu eitt árið hjá okkur og í ár mun meðal annars hljómsveitin Múrararnir spila.“

Valentína Tinganellí er 27 ára og býr á Njálsgötu 25 en hún heldur vöffluveislu í fyrsta skiptið í ár. „Mér hefur alltaf fundist mjög skemmtilegt að baka vöfflur þó að ég hafi kannski ekki verið nógu dugleg við það. Ég er búin að fá nokkra til þess að hjálpa mér enda er ekki séns að ég geti bakað ofan í allt fólkið ein. Ég er mjög spennt og þetta verður örugglega mikið stuð.“

Allt frá 200  upp í 1.200 manns geta fengið sér vöfflu í hverju húsi og eru nokkrir sem rölta á milli veisla. „Það er stanslaus straumur af fólki hérna frá því að við byrjum klukkan tvö alveg til klukkan fimm en þetta á bara að vera til fjögur. Við kjósum bara að baka þangað til allt klárast en það er líka lang skemmtilegast að eiga nóg til fyrir alla.“



Þórunn Andrésdóttir sem stendur til vinstri hefur hjálpað til í vöffluveislum í 7 ár. Ólöf og Gísli hafa verið að baka vöfflur í 9 ár og eru hvergi nærri hætt. MYND/ANTON BRINK
Hjónin Gísli Magnússon og Ólöf S. Arngrímsdóttir hafa öll níu árin haldið glæsilega vöffluveislu í garðinum sínum að Freyjugötu 28. „Ég er nú aðallega að baka en það er stanslaus straumur allan daginn. Við höfum tekið eftir því að það er mikil aukning í ferðamönnum en þeir trúa því varla að það sé hægt að fara í heimahús og fá fríar vöfflur,“ segir Ólöf, en hún segir veðrið einnig hafa mikil áhrif því það slái af umferðinni þegar hann rignir. „Við ætlum bara að hafa gott veður. Það er ekkert annað í stöðunni.“

Heilu fjölskyldurnar safnast saman og hjálpast að við að baka vöfflur enda nóg af áhugasömum gestum sem koma í heimsókn ár hvert.
Hópurinn hefur haldið sér vel í gegnum árin þrátt fyrir að einhverjir hafi týnst úr og aðrir bæst við. „Við förum alltaf öll saman út að borða um kvöldið. Það getur reynst erfitt að fá borð á veitingastað þetta kvöld fyrir svona marga en það eru nokkur veitingahús sem hafa stundum verið góð við okkur. Við erum ekki mikið að kíkja á hina dagskrána um kvöldið og höfum stundum misst af flugeldasýningunni en það gerir ekkert til,“ segja Ólöf og Gísli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×