Lífið

Kleif fimm tinda í svissnesku Ölpunum á einum degi

Atli Ísleifsson skrifar
Andreas Steindl er sannkölluð fjallageit.
Andreas Steindl er sannkölluð fjallageit.
Svisslendingnum Andreas Steindl tókst í vikunni að fara um 30 kílómetra leið og klífa fimm tinda í Ölpunum yfir 4.000 metra hæð á tæpum átta klukkustundum.

Hinn 26 ára Steindl ólst upp í Zermatt í svissnesku Ölpunum og hefur um árabil helgað sér fjallaklifri. 24 ára gamall hljóp hann leiðina, sem liggur milli Zermatt og Saas Fee, á rétt rúmum níu tímum og sló hann því persónulegt met sitt um rúma klukkustund.

Andreas Steindl.Mynd/Facebook
Í frétt SVT segir að Steindl hafi farið 30,66 kílómetra leiðina á sjö tímum, 45 mínútum og 44 sekúndum. Á leiðinni kleif hann hæstu tinda fjallanna Alphubel (4.206 metrar), Täschhorn (4.419 metrar), Dom (4.545 metrar), Lenzspitze (4.294 metrar) och Nadelhorn (4.327 metrar).

„Þetta var stórkostlegur dagur fyrir mig. Ég er himinlifandi með að mér hafi tekist að klára verkefnið. Veðrið og allar aðstæður voru fullkomnar þannig að mér líður mjög vel með þetta,“ sagði hann eftir að hafa komið í mark.

Steindl kleif fyrst fjallið Matterhorn í Sviss fjórtán ára gamall og hefur endurtekið leikinn áttatíu sinnum síðan. Hann segir Alpana vera stóran hluta af sínu lífi. „Ég vinn í fjöllunum. Ég ver öllum dögum sumarsins í fjöllunum. Þetta er svolítið eins og garðurinn minn.“

Að neðan má sjá myndband af afreki Steindl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×